Haukar eru Íslandsmeistarar í 10. flokki karla eftir æsispennandi slag gegn Njarðvíkingum. Haukar tóku því báða stórtitlana í þessum flokki í vetur en þeir lögðu einnig Njarðvíkinga í bikarúrslitum fyrr á tímabilinu. Kristján Sverrisson var valinn besti leikmaðurinn í úrslitaleiknum með 19 stig, 7 fráköst og 6 stolna bolta í liði Hauka. Um gríðarlegan varnarslag var að ræða þar sem liðin gerðu bæði aðeins sjö stig í fjórða og síðasta leikhluta.
Hjálmar Stefánsson opnaði leikinn fyrir Hauka með þriggja stiga körfu en Njarðvíkingar voru þó fyrri til að láta sverfa til stáls þegar Kristinn Pálsson skellti niður þrist fyrir græna og kom sínum mönnum í 14-8. Haukar voru að pressa eftir skoraðar körfur og þegar leið á leikhlutann snéru þeir dæminu sér í vil, lokuðu fyrsta með 4-14 spretti þar sem Kristján Sverrisson og Kári Jónsson fóru mikinn, Kristján með 8 stig og Kári 9. Haukar leiddu því 18-22 að loknum fyrsta leikhluta.
 
Bæði lið hertu tökin í vörninni í öðrum leikhluta og það virtist fara betur í Njarðvíkinga sem komust yfir 25-24 eftir þrist frá Magnúsi Má Traustasyni en hann var grimmur í fyrri hálfleik fyrir græna með 11 stig og 6 fráköst. Kári Jónsson hafði ekki fundið taktinn allan annan leikhluta en skellti svo niður þrist þegar um 50 sekúndur voru til hálfleiks og jafnaði fyrir Hauka í 31-31 og þannig stóðu leikar í hálfleik.
 
Kári Jónsson var með 12 stig og Kristján Sverrisson 10 hjá Haukum en í Njarðvíkurliðinu var Kristinn Pálsson með 12 stig og Magnús Már 11 og 6 fráköst.
 
Þriðji leikhluti var keimleikur öðrum leikhluta, vörnin í fyrirrúmi og Njarðvíkingar leiddu 38-35 þegar um þrjár mínútur voru eftir af leikhlutanum. Kristján Sverrisson leiddi svo Haukana þegar leikhlutinn var við það að renna út, kappinn smellti niður þrist og jafnaði leikinn í 40-40 og var svo aftur á ferðinni í næstu Haukasókn er hann kom rauðum í 40-42 og þannig stóðu leikar fyrir fjórða og síðast leikhluta.
 
Aðeins tvö stig voru skoruð fyrstu fjórar mínúturnar í fjórða leikhluta og ljóst að hvert stig myndi vigta þyngdar sinnar í gulli þennan lokasprettinn. Hjálmar Stefánsson losaði aðeins um stífluna er hann kom Haukum í 42-45 með þriggja stiga körfu og síðar fóru rauðir í 42-47. Njarðvíkingar voru ekki af baki dottnir og minnkuðu muninn í 44-47 en þar var Magnús Már Traustason að verki eftir sitt eigið sóknarfrákast.
 
Njarðvíkingar fengu þrjú tækifæri til að jafna metin, þrjú þriggja stiga skot sem vildu ekki niður en loks náðu Haukar varnarfrákasti og Njarðvíkingar brutu. Kári Jónsson fór þá á línuna og kom Haukum í 44-49. Í næstu sókn brutu Haukar á Ragnari Friðrikssyni í þriggja stiga skoti og þá var bara eitt í stöðunni fyrir græna, setja niður tvö fyrstu skotin eins og Ragnar gerði og brenna af því síðasta til að freista þess að ná sóknarfrákasti, dúndra boltanum út, taka þrist og jafna leikinn. Í besta falli langsótt. Svo óheppilega vildi til að þriðja vítið fór einnig niður svo það reyndi ekki á þetta sóknarfrákast og Haukar fögnuðu sigri.
 
Gríðarlegur varnarslagur að baki þar sem Haukar kórónuðu sterkt tímabil með Íslandsmeistaratitlinum svo þeir eru óumdeilt besta lið landsins í þessum árgangi.
 
Kristján Leifur Sverrisson var eins og áður segir besti maður leiksins með 19 stig, 7 fráköst og 6 stolna bolta í liði Hauka og Kári Jónsson bætti við 18 stigum og 5 fráköstum. Hjá Njarðvíkingum var Magnús Már Traustason með 15 stig og 13 fráköst og Kristinn Pálsson bætti við 14 stigum og 10 fráköstum.
 
Gangur leiksins:
18-22, 31-31, 40-42, 47-49
 
Mynd og umfjöllun/ nonni@karfan.is