Mikil eftirvænting var í Ásgarði í kvöld þegar heimamenn í Stjörnunni tóku á móti Grindvíkingum í fjórða leik liðanna í undanúrslitum Iceland Express deildar karla. Fyrir leikinn höfðu Grindvíkingar unnið tvo leiki en Stjörnumenn einn og því var ljóst að með sigri kæmust Grindvíkingar í úrslitaeinvígið gegn Þór, meðan Stjarnan var með bakið þéttingsfast upp við vegginn margfræga.
Grindvíkingar voru talsvert sterkari aðilinn í byrjun leiks og virtist sem að Stjörnumenn væru bara hreinlega ekki mættir til leiks. Grindvíkingar virtust búnir að finna ágætar lausnir við sóknar- og varnarleik Garðbæinga og flest stig Stjörnumanna komu frá Justin Shouse og Keith Cothran. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 17-26, Grindvíkingum í vil. Undir lok fjórðungsins átti leiðinlegt atvik sér stað. Ólafur Ólafsson og Jovan Zdravevski fóru þá upp í frákastsbaráttu, sem endaði með því að Jovan lenti á ökkla Ólafs. Ólafur virtist hafa meiðst ansi illa, því leikurinn var stöðvaður í nokkrar mínútur meðan hlúð var að meiðslum Ólafs. Áhorfendum og leikmönnum var skiljanlega nokkuð brugðið en Ólafur var borinn út á sjúkrabörum við dynjandi lófatak áhorfenda, en ljóst er að Ólafur spilar ekki körfuknattleik í bráð. Óskar Karfan.is honum góðs bata.
 
Grindvíkingar höfðu hreðjatak á leiknum í öðrum leikhluta. Stjörnumenn komust lítið áleiðis og J’Nathan Bullock fór hamförum í sóknarleik gestanna. Hinum sterkbyggða Bandaríkjamanni héldu hreinlega engin bönd og skoraði kappinn 21 stig í fyrri hálfleik. Í hálfleik var staðan 36-48, gestunum í vil, og enn voru heimamenn ekki mættir í sömu baráttu og Grindvíkingar.

Skotnýting liðanna í hálfleik:
Stjarnan: Tveggja 57,6%, þriggja 0% (0 af 9) og víti 54,5%
Grindavík: Tveggja 53,8%, þriggja 38,4% og víti 71,4% 
Sama var uppi á teningnum megnið af þriðja leikhluta. Grindvíkingar höfðu tögl og hagldir á öllum sviðum körfuboltans og komust í 17 stiga forystu um miðjan leikhlutann. Stjörnumenn virtust alveg heillum horfnir en þeim tókst þó að klóra verulega í bakkann fyrir lokaleikhlutann með frábæru áhlaupi, staðan fyrir lokaleikhlutann var 57-65, gestunum í vil.
 
Lokafjórðungur þessa leiks var í einu orði sagt, æsispennandi. Það forskot sem gestirnir höfðu var fljótt uppurið, og þegar um tvær mínútur voru til leiksloka komust heimamenn yfir í fyrsta skipti síðan í stöðunni 2-0. Þá var staðan 74-72. Þegar 10 sekúndur voru eftir af leiknum var staðan jöfn, 77-77, en þá átti sér stað atvik sem Stjörnumenn munu líklega aldrei gleyma. Eftir mislukkað skot Grindvíkinga náði Fannar Helgason frákastinu. Sigurður Þorsteinsson kemur þá aftan að Fannari og nær á einhvern ótrúlegan hátt að blaka boltanum úr höndum Fannars og til Þorleifs Ólafssonar, sem þakkaði pent fyrir sig með stoðsendingu á Sigurð, og staðan 77-79. Stjörnumenn urðu hér alveg æfir, enda vildu þeir meina að Sigurður hafi brotið á Fannari í klafsinu í teignum. Leikurinn hélt þó áfram og Stjörnumenn fóru í sókn með sjö sekúndur eftir af leiktíma, þó eftir leikhlé Teits Örlygssonar. Justin Shouse fær knöttinn og keyrir inn að körfunni. Þar mætir honum hópur Grindvíkinga og slá boltann út af með hálfa sekúndu eftir af leiknum. Hér urðu Stjörnumenn aftur alveg brjálaðir, og töldu hafa verið brotið á Shouse. Lokatilraun Garðbæinga rann svo út í sandinn og ljóst að Grindvíkingar báru sigur úr býtum, 77-79, eftir æsispennandi leik. Það verður því Grindavík sem mætir Þór frá Þorlákshöfn í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn í körfuknattleik, 2012.
 
Atvikin í lok leiks reyndust Stjörnunni dýr, en þó er erfitt að segja að sigur Grindvíkinga hafi ekki verið sanngjarn. Gestirnir voru betri allan leikinn en þó má velta því fyrir sér hvað hefði gerst hefði villa verið dæmd á Sigurð Þorsteinsson gegn Fannari Helgasyni. Hefði Sigurður fengið villuna, þá hefði sú verið hans fimmta, auk þess sem Fannar hefði fengið gullið tækifæri til að koma Garðbæingum tveimur stigum yfir. Það varð þó ekki, og voru Garðbæingar gríðarlega ósáttir, enda reyndist þetta sigurkarfan. Svona atvik gerast þó í íþróttum og ómögulegt að segja til um öll “hvað ef” augnablikin sem verða.
 
Stigahæstur Stjörnumanna var Justin Shouse með 22 stig en Keith Cothran skoraði 21. Hjá gestunum var J’Nathan Bullock stigahæstur með 26 stig, en hann hafði heldur hægt um sig í seinni háfleik og var með fimm stig eftir skotsýningu í þeim fyrri.
 
Grindvíkingar eru vel að sigrinum komnir, enda með frábært lið. Stjörnumanna bíður hins vegar erfitt sumarfrí, en Garðbæingar geta þó borið höfuðið hátt eftir góða baráttu í undanförnum leikjum. Úrslitaeinvígið er þó klárt, þar mætast Grindavík og Þór, í sannkölluðum Suðurstrandarslag.
 
Umfjöllun/ Elías Karl Guðmundsson
Mynd/ Jón Björn Ólafsson