Grindavík tók í gærkvöldi 1-0 forystu í úrslitaeinvíginu gegn Þór úr Þorlákshöfn. Um bráðfjörugan spennuleik var að ræða og höfum við á Karfan.is tekið upp á því að vera með nýjan lið eftir hvern leik sem fær nafnið Greiningarstöðin. Kjartan Atli Kjartansson ríður á vaðið, sjáum hvað Kjartan hefur um þennan fyrsta leik að segja. 
Fyrsti leikur í baráttunni um Suðurstrandaveginn var afar forvitnilegur fyrir margar sakir. Þegar upp er staðið er, að mínu mati, í raun ótrúlegt að Þór hafi verið jafn nálægt því að vinna leikinn og raun ber vitni. Frábær hittni einkenndi leikinn út í gegn og hátt tempó, sem framkallaði fjöldan allan af mistökum. Þórsarar keyrðu leikinn ítrekað upp – sem maður hefði haldið fyrirfram að hentaði því liði sem væri með meiri breidd -og þegar upp var staðið gekk sú leikaðferð næstum því upp.
 
Varnarleikurinn
Varnarleikur liðanna var oft ekki upp á marga fiska í gær. Ef við byrjum á Þórsliðinu þá voru þeir alltof oft skrefinu á eftir Grindvíkingum í byrjun. Grindvíkingar vilja „kötta“ að körfunni úr þríhyrningunum sem þeir mynda, bæði eftir endalínu og í gegnum miðjuna. Þorleifur Ólafsson var fremstur á meðal jafningja í þeirri listgrein hjá þeim gulu. Gaman að sjá Lalla læðupúkast í gegnum teig Þórsara og fá auðveldar körfur í kjölfarið.
 
Benni breytti svo yfir í 2-3 svæði í byrjun seinni hálfleiks, sem var afar klókt, enda Grindvíkingar þekktir fyrir að ströggla á móti svæðisvörn (meira um það síðar). Að mínu mati var þó svæðisvörnin svolítið lengi í gang. Til dæmis var eins og Joseph Henley hafi ekki alveg verið á sömu blaðsíðu og félagar sínir þegar kom að róteringum á vængjunum. En eftir því sem á leið fór svæðisvörnin að hægja á Grindvíkingum. Á móti kom að Giordan Watson fékk að valsa um og velja sér sendingaleiðir og átti m.a. fallegustu sendingu vetrarins gegn þessari svæðisvörn. Í fjórða leikhluta var eins og Þórsarar væru orðnir betur að sér í því hvernig átti að stoppa Grindvíkingana með svæðisvörninni (Gummi Jóns var oft að rótera skemmtilega niður á „high-post“, Darri Hilmars las mjög vel hvenær hann átti að halda sér uppi á vængnum og hvenær hann átti að fara niður í horn og Baldur Ragnars náði að dekka stór svæði með mikilli yfirferð). Þórsarar brydduðu upp á allskonar varíöntum á svæðinu og var oft erfitt að lesa vörnina. Ég vil þó ekki gefa þessari vörn of mikið, því ég er viss um að Þórsarar geti spilað betri vörn, og ætla að skella skuldinni svolítið á Grindavík fyrir að hafa ekki nýtt sér styrkleika sína nægilega vel.
 
Varnarleikur Grindavíkur var að mörgu leyti góður. Það er afar erfitt að verjast liðum eins og Þór sem hafa sterkan bakvörð sem vill keyra að körfunni og svo gommu af leikmönnnum sem geta sett þriggja stiga skotin niður. Watson og Lalli voru að gera flotta hluti á Govens og létu hann hafa mikið fyrir hlutunum. Vörnin á stóru strákana var þokkaleg, helst mátti merkja að fallið var of langt frá Janev og Grétari í gegnumbrotum Þórsara og svo fékk Henley að komast í ansi góðar skotstöður.
 
Helgi Jónas gerði, að mínu mati, rétt með því að spila maður á mann vörn allan tímann. Ég myndi vilja sjá þá setja meiri pressu á vængmennina, sem fengu boltann of auðveldlega og oft bara hreinlega í skotstöðu. Þegar Watson er að dekka Govens þá þurfa aðrir leikmenn Grindavíkur ekki að falla eins langt frá sínum manni og þeir gerðu. Menn voru svolítið of æstir í að hjálpa og við það opnuðust skotfæri Þórsara. Þeir nýttu færin sín hrikalega vel þegar þau gáfust og því má ekki falla eins langt frá mönnum og þeir gulu gerðu.
 
Sóknarleikurinn
Ef við byrjum núna á Grindavík, þá verðum við að byrja að hrósa Watson fyrir frábæran leik. Mér hefur þótt hann týnast svolítið í þríhyrningssókninni, finnst hann stundum fá úr óþarflega litlu að moða. Hann steig varla feilspor í gær og vann leikinn fyrir Grindavík. Aðrir leikmenn stigu einnig upp. Jóhann Ólafsson átti flottan leik í fjarveru Óla Óla, þetta gerist gjarnan þegar menn fá lengri tíma til að athafna sig og vita að þeir munu fá mínútur til þess að bæta upp fyrir mistök. Grindavík hefur afar mikla breidd í sókninni og náðu að nýta það virkilega vel í fyrri hálfleik. Til dæmis bar ekki mikið á Bullock, en samt sem áður skoraði hann auðveldlega – en allt í flæði leiksins.
 
Aftur á móti var seinni hálfleikurinn á tíðum jafn slakur og sá fyrri var góður. Í byrjun síðari hálfleiks var Watson uppi á toppinum í sókninni og stýrði leiknum. Þá virtist fátt ætla að stoppa Grindvíkinga, sem létu boltann rúlla vel manna á milli. En eftir því sem á leið var eins og Grindvíkingar væru að reyna að þvinga sjálfa sig til þess að spila þríhyrningssóknina á móti svæðisvörninni, sem gerði Þórsurum auðveldara fyrir. Við það hægðist á boltahreyfingunni og róteringar urðu einhvernveginn hægari.
 
Þannig að tvö mismunandi Grindavíkurlið mættu í þennan fyrsta leik úrslitanna. Verður fróðlegt að sjá hvort þeir nái að lengja góðu kaflanna enn meira, eða hvort Þórsliðið nái að stríða þeim meira en gerðist í þessum leik.
 
Lítið fór fyrir öguðum leik hjá þeim grænu í gær í sókninni. Þórsarar tóku 44 skot fyrir innan þriggjastigalínuna á móti 35 fyrir utan. Að sjálfsögðu er ekkert að því að reyna mikið af þristum, en mörg þessara skota voru úr erfiðri stöðu og jafnvel beint upp úr knattraki. En þegar liðið datt í gang var eins og þeir væru að kasta tíköllum í húllahring, allt fór ofan í. Til dæmis settu þeir þrist í fjórum sóknum í röð í fyrsta leikhluta, sem væri ekki í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að það voru fjórir mismunandi leikmenn settu þrist. Eini leikmaðurinn sem ekki hitti var Darrin Govens, en hann reyndi að setja einn slíkan og hefði þurft að banka upp á hjá Óskari Ófeigi Jónssyni og athuga hvort það væri ekki einsdæmi í úrslitum að allir leikmenn byrjunarliðs setji þrist í fimm sóknum í röð.
 
Þegar Þórsliðið rúllaði kerfunum og komst í vegg-og-veltu fléttur með Govens á boltanum voru þeir illviðráðanlegir. Govens tók jafnan góðar ákvarðanir með boltann og dúndraði honum ósjaldan út á þann stóra mann sem ekki var að rúlla að körfunni og gaf það opið skot eða opnaði nýjar sendingalínur. Ég var mjög hrifinn af Henley, held að hann eigi eftir að verða betri í þeim leikjum sem á eftir koma. Þetta er strákur sem getur búið sér til færi sjálfur, er lipur og virðist vera ákaflega góður að halda stoðfætinum niðri á blokkinni en komast samt í góða stöðu. Hann var einfaldlega ekki að klára góð færi í þessum leik, eitthvað sem ég er viss um að hann lagi.
 
Heilt yfir virkaði Þórsliðið samt mjög ört og skorti smá yfirvegun í þá grænu. Til dæmis fengu þeir kjörið tækifæri til þess að jafna leikinn seint í fjórða leikhluta, í stöðunni 91-89, en köstuðu boltanum frá sér eftir skrítna ákvörðun Govens að keyra inn í vörnina.
 
Hvað gerist næst?
Í fyrsta leik í svona einvígi er gjarnan mikið um mistök. Þjálfararnir eru einnig að „þreifa“ á taktík hvors annars. Ég er viss um að liðin komi til með að spila aðeins öðruvísi í öðrum leiknum.
 
Þórsarar munu væntanlega vilja flýta sér aðeins hægar í sókninni, taka örlítið betri skot. Þeir þurfa að halda áfram að finna leikstöður þar sem þeir geta nýtt sér vegg-og-veltu. Grindvíkingar eiga í svolitlum vandræðum með að verjast þeirri fléttu og lenda oft í því að skipta á hindruninni. Govens er það klókur leikmaður að hann nýtir sér svoleiðis hluti. Ég kalla hér með eftir því að þeir muni nota kerfið þar sem boltinn er hreyfður og endar á vængnum þar sem Govens fer í vegg-og-veltu með öðrum stóra manninum á sama tíma og tvær hindranir eru settar upp á hinum vængnum fyrir skotbakvörðinn (Darra eða Gumma). Grindavík átti í vandræðum með að verjast því.
 
Í vörninni munum við væntanlega sjá svæðisvörnina nokkuð snemma í leiknum, þó svo að ég sé ekkert endilega viss um að Benni muni byrja í henni. Þeir eiga leikmennina til þess að spila maður-á-mann vörn gegn Grindavík. Þeir þurfa einfaldlega að vera meira meðvitaðir um „köttin“ af stóru mönnunum, reyna að stíga fyrir menn og láta þá frekar skjóta yfir sig en að gefa línur að körfunni. Persónulega myndi ég vilja sjá Benedikt prófa box og 1 vörn, með Govens á Watson, Gumma og Darra í efri línu og Henley og Janev í þeirri neðri. Sérstaklega þegar Páll Axel er ekki inni á vellinum.
 
Þórsarar verða líka að stíga betur út og mega ekki tapa frákastabaráttunni eins og gerðist í síðasta leik.
Atriðin sem þór þarf að bæta eru auðveldlega löguð. Þetta snýst um klókindi, lestur á leiknum og baráttu. Hugur og hjarta þurfa að vera samrýmdari – fyrsta leikinn spiluðu þeir með hjartanu en tóku stundum slæmar ákvarðanir, bæði í vörn og sókn.
 
Grindavíkurliðið þarf að halda áfram að spila eins og þeir gerðu í fyrri hálfleik. Watson er algjör lykilmaður fyrir þá og þegar hann var mikið í boltanum voru gjarnan góðir hlutir að gerast. Bullock var verulega flottur að sama skapi, en það fór í raun ótrúlega lítið fyrir honum miðað við tölfræðinni sem hann skilaði.
Grindvíkingar hljóta að hafa áhyggjur af því að hafa spilað jafn góðan leik og raun ber vitni og samt vera nálægt því að missa sigurinn úr greipum sér. Þeir hittu fáránlega vel (55% í 2ja og 50% í þriggja), tóku 9 fleiri fráköst en gestirnir og töpuðu ekkert sérstaklega mörgum boltum (12). Samt hefðu Þórsarar getað jafnað leikinn á síðustu mínútunni.
 
Það sem Grindavík gerir líklega er að setja meiri pressu á vængmennina og gera sendingarnar erfiðari. Þeir þurfa líka að fínpússa vörn gegn hinni margræddu vegg-og-veltu fléttu og spila betri hjálparvörn á þann stóra mann sem er ekki í fléttunni og lúrir fyrir utan.
 
Gegn svæðinu hljóta þeir að rúlla boltanum betur en þeir gerði í fyrsta leik. Þeir hljóta líka að setja Watson meira á toppinn. Þeir mættu prófa að setja eins og nokkrar boltahindranir fyrir Watson og láta hann búa til úr því – sérstaklega ef að erfitt er að lesa Þórsvörnina.
 
Ég myndi líka vilja sjá Helga Jónas henda Birni Steinari inn á völlinn gegn svæðinu og sjá hvort hann sé heitur. Björn Steinar er frábær varnarmaður og gerir fá mistök. Þess vegna er alveg óhætt að henda honum inn á völlinn. Að sama skapi saknar maður Ómars Arnar Sævarssonar, sem er frábær leikmaður. Ómar er auðvitað að berjast við algjöra stórlaxa um mínútur en ætti samt að geta skilað nokkrum mínútum í hvíld fyrir Bullock.
 
Grindavík gerði fína hluti í fyrsta leik og hefðu þeir gulu getað siglt þessum leik auðveldlega í höfn ef þeir hefðu verið örlítið skarpari í nokkrum smáatriðum. Helgi Jónas á eftir að liggja yfir upptökum af leiknum og kryfja leik Þórsliðsins enn frekar og kemur með einhver svör – það er ég viss um.
 
Ég vona innilega að þessi sería fari í fimmta leik. Ég held, sé miðað við þennan fyrsta leik, að Þórsliðið eigi meira inni en Grindavík. Varnarleikurinn sem þeir sýndu í fyrri hálfleik var langt frá því sem þeir sýna gjarnan og kallast útlagi á tölfræðimáli. Að sama skapi eru ekki mörg atriði sem Grindvíkingar þurfa að laga til þess að klára annan leikinn. Sigri Grindvíkingar þann leik er þetta orðið ansi þungt fyrir þá grænu. Ég á mjög erfitt með að sjá hvort liðið muni vinna, en ég er þó viss um að við munum sjá talsvert lægra stigaskor og meira um pústra og átök.
 
Kjartan Atli Kjartansson