Fyrir leik var mikil stemmning í Þorlákshöfn þar sem að tvö mögnuð lið voru að fara að mættast og var búist við miklu stuði. Húsið algerlega stappað og áhorfendur vel með á nótunum. Í upphafi var skrekkur í Þórsurum en Grindvíkingar mættu vel einbeittir og var ljóst frá upphafi að þeir ætluðu að selja sig dýrt. Hjalti Þór Vilhjálmsson nýráðinn þjálfari Fjölnis rennir leik tvö hjá Grindavík og Þór í gegnum Greiningarstöðina að þessu sinni. 
Breiddin
Eftir fyrsta leikhluta voru alls níu leikmenn Grindvíkinga búnir að tölta um gólfið en sjö Þórsarar. Pettinella var búinn að fara inná og útaf aftur með tvær villur. Í byrjun annars leikhluta byrjuðu bæði Bullock og Watson á bekknum hjá Grindavík. Eftir fyrri hálfleikinn var Grindavík búið að rótera 10 leikmönnum tvisvar inn og út af vellinum á meðan að sjö leikmenn Þórsara höfðu komið við sögu og þar af Govens búinn að vera á parketinu allan tímann. Seinni hálfleikur var ekkert ósvipaður þar sem að Grindvíkingar skiptu við hvert tækifæri og Þórsarar róteruðu 6 leikmönnum í fjórar stöður þar sem að Govens spilaði þar til í blálokin. Govens er skiljanlega mjög mikilvægur fyrir þetta lið en hann hefur oft verið öflugri en í þessum leik. Grindvíkingarnar voru með ferskari fætur en Þórsarar og það gaf þeim mikið í þessum leik einnig virtist það ekki skipta miklu máli hvaða fimm voru inná hverju sinni.
 
Vörnin
Þórsarar voru að spila þokkalega vörn oft og tíðum en það sem háði þeim mikið var að Grindavík var að fá fleiri en einn séns í sókn og skoruðu þeir mikið eftir sóknarfrákast sérstaklega í fyrri hálfleik. Að stíga út var eitthvað sem var gleymt og grafið. Þórsarar voru að ná að loka þokkalega en Grindvíkingar voru skynsamir og þolinmóðir og gerðu hlutina saman og létu vörnina hreyfa sig og enduðu sóknirnar yfirleitt með góðu skoti. Þórsarar byrjuðu svo fjórða leikhlutann í 2-3 svæðisvörn sem gekk með ágætum í fyrsta leiknum en í þessum leik hélt hún engan veginn og samskipti manna með minnsta móti og héldu Grindvíkingar netta sýningu á þeim tíma.
 
Grindvíkingar leggja skiljanlega mikla áherslu á að stoppa Govens og voru duglegir að rótera mönnum á hann. Lalli og Jói dekkuðu hann mestmegnis í fyrri hálfleik en Watson í þeim seinni. Jói og Lalli voru mjög fastir fyrir í fyrri hálfleik á Govens og það fór greinilega illa í hann. Þegar Þórsarar notast við boltaskrín þá koma stóru menn Grindvíkinga vel upp fyrir boltamanninn en um leið þétta aðrir vel í námunda við körfuna. Ef það er Govens sem fær skrínið að þá leitar hann mikið af sjálfum sér og gleymir að líta í kringum sig og þessvegna fá þeir oft ekkert út úr boltahindrununum. Boltinn er mikið í höndunum á Govens og reyndi hann mikið að koma sér inn í leikinn í gærkvöld og háði það Þórsurum mikið. Stóru mennirnir hjá Grindavík eru mjög hreyfanlegir og duglegir að mæta í hjálpina og eins eru þeir snöggir niður eftir að hafa varist boltaskrínum. Bakverðir Grindvíkinga eru duglegir að skipta sín á milli á skrínum og er það að valda Þórsurum töluverðum vandræðum. Greinilegt er að Helgi er búinn að kortleggja Þórsarana vel og hafa þeir farið vel yfir málin frá leik eitt.
 
Sóknin
Sókn Þórsara byggðist mikið í kringum Govens í þessum leik og fengu í raun aðrir leikmenn ekki að njóta sín. Margar sóknir fóru í boltaskrín þar sem Govens náði ekki að nýta sér möguleikana þar sem að hann var of einbeittur á að koma sér að í leiknum. Govens er frábær leikmaður en hann verður að passa sig að hafa liðið með sér og spila fyrir liðið sérstaklega þegar skotin eru ekki að detta líkt og í þessum leik. Í byrjun seinni hálfleiks byrjuðu Þórsarar að spila líkt og maður þekkti þá úr seríunni gegn KR, boltinn gekk og þeir voru að aðstoða hvorn annan en svo eftir leikhlé hjá Helga þá byrja þeir aftur að hnoðast og drippla.
Grindvíkingarnir eru ávalt að læra betur og betur inn á þríhyrningssóknina og leit hún virkilega vel út á köflum en stundum var boltinn mikið öðru megin á vellinum og varð hún þá stirð. Bullock var virkilega sprækur í þessum leik og áttu Þórsarar í töluverðu basli með hann. Lalli var mjög ákveðinn í leiknum og var mjög flottur, Jói hélt uppteknum hætti frá síðasta leik, Watson spilaði fyrir liðið og átti einnig flottan leik þrátt fyrir að skora aðeins tvö stig.
 
Grindvíkingarnir allir voru að hjálpast að við að vinna leikinn á meðan að mér fannst Þórsarar vinna í sitthvoru horninu og reyna að redda málunum. En það vill oft verða þannig þegar að lið lenda undir.
 
Barátta
Í einvíginu gegn KR voru Þórsarar að ýta KR-ingum út úr stöðum, voru að boxa þá út og virkuðu sem þvílíkir naglar. Þetta fór illa í KR-ingana sem fóru út í það að drippla og reyna erfið skot og hætta að spila sem lið. Þetta er nákvæmlega það sem Þórsararnir eru að lenda í núna, Grindvíkingarnir eru einfaldlega mun ákveðnari í öllum aðgerðum sínum og eru að þvinga Þórsara í erfið skot og þeir eru hættir að spila sem lið. Þórsarar sýndu sitt rétta andlit í byrjun seinni hálfleiks og þá gerðust flottir hlutir, Grétar lét Bullock finna fyrir því var að ýta honum út, vörnin var hreyfanlegri og þeir fóru að láta boltann rúlla í sókninni. En það er ekki nóg að spila í 5 mínútur, leikurinn er víst allavega 40 mínútur.
 
Grindavíkingar byrjuðu sumarið 2011 að hugsa um að búa til lið sem myndi fara alla leið, fengu Sigurð og Jóhann og bættu svo við Watson til að byrja með og svo kom Bullock og loks Pettinella. Einbeitingin á að vinna titilinn hefur magnast upp með tímanum og miðað við það sem sást í þessum öðrum leik þá var ekkert sem var að slá þá útaf laginu og sá maður það í upphafi leiks að þeir vildu þetta meira en Þórsararnir. Þorleifur var duglegur að reka menn áfram og hungrið er mikið.
 
Ég hugsa að Þórsarar séu einfaldlega sáttari en Grindavík með það að lenda í öðru sæti þó svo að ég auðvita vona að þeir spýti í lófana og sýni sama leik og gegn KR í undanúrslitum þannig að serían fari í sem flesta leiki.
 
Ég er ekki endilega á því að Þór eigi að fara í svæði, þeir geta spilað góða maður á mann vörn líkt og þeir hafa sýnt í vetur, auðvitað er ekkert að því að brjóta aðeins upp leikinn og setja upp svæðisvörn en með meiri baráttu og dugnaði að þá geta þeir alvega átt í fullu tréi við Grindvíkinga en það er bara spurning hvort þeim langi þetta meira en þá gulklæddu. Þeir þurfa að koma af stað flæði í sókninni senda boltann ef stóru mennirnir koma svona langt út í boltaskrínunum. Govens á varla annan svona leik aftur og Henley verður að stíga upp. Næsti leikur veltur mikið á því hvort leikmenn Þórs séu saddir eða hvort þeir mæti tilbúnir í alvöru átök!
 
Hjalti Þór Vilhjálmsson