Fanney Lind Guðmundsdóttir skrifaði í gær undir samning við Körfuknattleiksdeild Fjölnis um að leika með félaginu á næstu leiktíð. Fanney er mikill hvalreki á fjörur Fjölnis enda öflugur leikmaður þar á ferð.
Bragi Hinrik, þjálfari Fjölnis, hafði eftirfarandi að segja um þennan nýjasta liðsmann kvennaliðsins í Dalhúsum:
 
,,Fanney er klárlega einn besti leikmaður deildarinnar og mun hjálpa liðinu mikið í komandi baráttu. Hún er fjölhæf, baráttuglöð og það sem skiptir mig mestu máli metnaðarfullur og skemmtilegur karakter. Ég er þegar farinn að hlakka til næsta vetrar og stelpurnar strax orðnar spenntar að hefja undirbúning fyrir næsta tímabil. Það er frábært að fá Fanney svona snemma inn í starfið og ég er handviss að við eigum eftir að vinna vel saman," sagði Bragi.
 
Fjölnir komst ekki inni í úrslitakeppnina þetta tímabilið og börðust hart við Hamar, þaðan sem Fanney kemur, um áframhaldandi veru í úrvalsdeild þar sem Fjölnir hafði betur.
 
Mynd/ www.fjolnir.is – Steinar formaður KKD Fjölnis og Fanney við undirritun samningsins í gær.