,,Já nú er það bara do or die hjá okkur eins og þeir segja," kvað við í Darra Hilmarssyni í kvöld þegar Þór Þorlákshöfn fékk skell á heimavelli og misstu Grindavík 2-0 framúr sér í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn. Darri gerði 11 stig í leiknum fyrir Þór, tók 6 fráköst og gaf 4 stoðsendingar.
,,Við náðum ekki sóknartaktinum okkar, ég veit ekki alveg hvað það var en ég veit bara að í vörninni var Grindavík að taka of mikið af fráköstum hjá okkur og við verðum að ná þessum fráköstum og keyra á Grindvíkingana og fá okkur í gang. Við höfum verið að fá þetta í síðustu leikjum, þ.e. auðveldu körfurnar, þær hafa verið að koma með góðri frákastabaráttu," sagði Darri. Grindavík hefur varið teiginn sinn mjög vel fyrstu tvo leikina, við spurðum Darra hvort það væri sanngjarnt að segja að Þór hefði ekki fundið lausn á þessari vörn Grindavíkur við körfuna?
 
,,Þeir eru með svakalega skrokka þarna undir og því ekki auðvelt að fara í teiginn hjá þeim og skora en við þurfum að ráðast betur á þá, fá vítin en við tókum ekki nægilega mörg víti í þessum leik," sagði Darri sem hefur reynslu af því að eyðileggja veislur þegar fólk hyggur á titilfögnuð eins og eflaust margir Grindvíkingar gera nú er þeir hugsa um komandi sunnudag.
 
,,Ég hef gert þetta áður með KR 2009 en þá var Grindavík einmitt yfir 2-1 og við skemmdum partýið þá og við ætlum að gera það aftur núna og þetta er ekki búið fyrr en þeir vinna þrjá leiki. Við ætlum okkur að vinna næsta leik!"
 
Mynd/ B. Bóas
Viðtal/ nonni@karfan.is