Benedikt Guðmundsson þjálfari Þórs sagði að Þórsarar hefðu hleypt Nonna Mæju í of mikið stuð og að sínir menn hefðu einfaldlega verið klaufar í kvöld þegar Snæfell tryggði sér oddaleik með 10 stiga sigri á nýliðunum. Þorsteinn Eyþórsson talaði við Benedikt í Stykkishólmi í kvöld.
Hvað fannst þér vanta upp hjá ykkur í kvöld?
„Það vantaði upp á varnarleikinn hjá okkur meira og minna allan leikinn, við réðum ekki nógu vel við þá. Við hleyptum Nonna Mæju í mikið stuð, gerðum hann funheitann og Cole spilaði miklu betur en síðast og Marquis Hall stendur alltaf fyrir sínu. En hvað okkur varðar þá skoruðum við svipað mikið og við gerum alltaf, 80 – 85 stig en við fengum á okkur allt of mikið af stigum. Þrátt fyrir það þá vorum við í færi til að sigra undir lokin. Þetta var komið í 10 stig en þá gerðum við áhlaup en settum ekki stóru skotin niður. Við töpuðum boltanum líka alltof mikið, við misstum hann klaufalega og fengum dæmd á okkur skref í hraðaupphlaupum þegar við vorum komnir þrír á tvo o.s.frv, þannig að við vorum bara klaufar. En við lögum það fyrir næsta leik, við ætlum að vaxa með hverjum leik en það verður ekki tekið af Snæfellingum að þeir spiluðu mjög vel í kvöld. Þarna þekkir maður þá“.
 
Mynd og viðtal/ Þorsteinn Eyþórsson