Á hverju tímabili ræða spekingar og áhugamenn um áhrif erlendra leikmanna á íslenskan körfuknattleik og sýnist sitt hverjum. Eins og gengur vilja sumir fækka erlendum leikmönnum á meðan aðrir telja slíkt fásinnu og færir hvor fylking fram rök fyrir sinni skoðun. Þessari grein er ekki ætlað að taka afstöðu til þess hvort breyta eigi heimilum fjölda erlendra leikmanna eða hvort halda eigi núverandi fyrirkomulagi í óbreyttri mynd. Markmiðið er að reyna að sýna fram á áhrif erlendra leikmanna á íslenskan körfubolta á nýloknu tímabili í kvennaboltanum og yfirstandandi tímabili í karlaboltanum. Áherslan verður þannig á núverandi fyrirkomulag.
 
 
En hvernig er unnt að greina heildaráhrif erlendra leikmanna með óyggjandi hætti? Eflaust er það ómögulegt. Körfubolti er leikur þar sem margir þættir spila saman og geta ráðið úrslitum. Við sjáum það hvorki skráð á leik- né tölfræðiskýrslu að leikmaður hafi í leik sýnt mikla baráttu eða veitt liðsfélögum sínum andlega hvatningu og þar fram eftir götunum. Með öðrum orðum, leikmaður getur haft heilmikil raunáhrif á leikinn þrátt fyrir að það komi hvergi fram í tölulegum gögnum. Þennan þátt íþróttarinnar skyldi aldrei vanmeta.
 
Vönduð tölfræði getur þó veitt vísbendingar þegar reynt er greina áhrif tiltekins leikmanns, þrátt fyrir að skýra aldrei á fullkominn hátt þau raunáhrif sem leikmaðurinn hefur. Þrátt fyrir að tölfræði sé í reynd sinni nokkuð ófullkomið mælitæki, þekkir höfundur ekki aðrar leiðir til að sýna fram á áhrif leikmanns á körfuboltaleik „svart á hvítu“. Þar af leiðandi verða tölfræðileg áhrif erlendra leikmanna á Íslandi skoðuð í heild, án þess að reynt verði að leggja mat á raunáhrif þeirra. Einkum verður stuðst við framlagsstig, enda mæla þau flesta tölfræðiþætti á fremur einfaldan hátt. Framlagsstig eru reiknuð svo: stig blokk fráköst stolnir boltar-klikkuð skot-tapaðir boltar.
 
Við skulum hefja athugun okkar með því að skoða hvaða leikmenn leiða Iceland Express deild kvenna (bæði deildarkeppni og úrslitakeppni) í nokkrum tölfræðiþáttum. Af þeim tíu sem skora mest að meðaltali eru níu erlendir leikmenn, sem allir skora meira að meðaltali en eini íslenski leikmaðurinn á listanum. Af þeim tíu leikmönnum sem flestar stoðsendingar gefa að meðaltali í leik eru átta leikmenn erlendir. Af þeim tíu sem flest fráköst hirða að meðaltali í leik eru þrír íslenskir leikmenn. Af þeim tíu leikmönnum sem hæst hafa tölfræðiframlag er enginn íslenskur leikmaður. Í öllum þessum tölfræðiþáttum tróna erlendir leikmenn á toppinum.
 
Lítum þá til framlags allra leikmanna í Iceland Express deild kvenna (bæði deildarkeppni og úrslitakeppni). Samanlagt gerðu allir leikmenn deildarinnar 19.996 framlagsstig, þar af voru erlendnu leikmennirnir með 9.521 framlagsstig. Hlutfallslega gerðu erlendir leikmenn 48% allra framlagsstiga á tímabilinu 2011/2012 í Iceland Express deild kvenna. Í deildinni voru samtals 122 leikmenn skráðir á leikskýrslu. Þar af voru erlendir leikmenn 20 talsins en íslenskir leikmenn voru 102. Erlendir leikmenn voru því 16,4% af heildarfjölda leikmanna í deildinni. 16,4% leikmanna gerði þannig 48% allra framlagsstiga í Iceland Express deild kvenna.
 
Hlutfall framlagsstiga var ólíkt á milli liða. Sem dæmi má nefna að hlutfallslega gerðu erlendir leikmenn nýkrýndra Íslandsmeistara í Njarðvík 60% af heildarfjölda framlagsstiga liðsins, en hlutfall í öðrum liðum má skoða í meðfylgjandi töflu.
 
Rýnum nú með sama hætti í tölfræðina í Iceland Express deild karla. Miðast öll tölfræði við deildarkeppnina og það sem lokið er af úrslitakepppninni á þeim degi sem þetta er skrifað (hinn 14. apríl 2012). Þeir tíu sem skora að meðaltali mest í leik eru allir erlendir leikmenn. Af þeim tíu leikmönnum sem flestar stoðsendingar gefa að meðaltali í leik eru átta erlendir leikmenn. Af þeim tíu sem flest fráköst hirða að meðaltali í leik er einn íslenskur leikmaður. Af þeim tíu leikmönnum sem hæst hafa tölfræðiframlag er enginn íslenskur leikmaður. Í öllum þessum tölfræðiþáttum tróna erlendir leikmenn á toppinum.
 
Snúum okkur að tölfræðiframlaginu. Í deildinni voru samtals 213 leikmenn skráðir á skýrslu. Þar af voru erlendir leikmenn 47 talsins (erlendir leikmenn sem hafa fengið íslenskan ríkisborgararétt eru hér meðtaldir) en íslenskir leikmenn voru 166. Erlendir leikmenn voru því 22,1% af heildarfjölda leikmanna í deildinni. Allir leikmenn deildarinnar voru samtals með 27.345 framlagsstig, þar af voru erlendir leikmenn með 13.500 framlagsstig. Hlutfallslega hafa erlendir leikmenn því gert 49% allra framlagsstiga á tímabilinu 2011/2012 í Iceland Express deild karla, en það er nánast sama hlutfall og var í kvennadeildinni. Hlutfallslegt framlag erlendra leikmanna í liðum deildarinnar má sjá í meðfylgjandi töflu.
 
Erlendir leikmenn, bæði í Iceland Express deild karla og kvenna, gera tæpan helming framlagsstiga deildanna, þrátt fyrir að vera aðeins um fimmtungur af heildarfjölda leikmanna. Ekki verður tekin afstaða til þess hér hvort tölfræðileg áhrif erlendra leikmanna á íslenskan körfuknattleik séu of mikil eða ekki, þaðan af síður hvort raunáhrif þeirra á leikinn séu of mikil eða ekki. Það þarf hver og einn að meta sjálfur.
 
Greinin var unnin upp úr tölfræðigagnagrunni KKÍ. Leynist villur í greininni er fyrirfram beðist afsökunar á þeim. Höfundur er ekki sérfræðingur í tölfræði, aðeins áhugamaður um körfubolta.
 
Bjarni Freyr Rúnarsson