Eftir formannafund KKÍ sem haldinn var í gær (27.apríl) var samþykkt að fela stjórn KKÍ að útfæra samþykktir er varða fjölda erlendra leikmanna í karla og kvennadeildum Íslandsmóts næstkomandi vetur. Þegar niðurstaðan birtist mér leit ég á dagatalið, ekki til að kanna dagsetninguna heldur ártalið sem við lifum og hvort ekki örugglega væri 21.öldin? Sé ég mig knúinn til að rita opið bréf til stjórnar og forráðamanna KKÍ þar sem ég skora á aðildarfélögin og stjórn KKÍ að stuðla að jafnrétti innan íþróttarinnar í hvaða mynd sem er.
Það skal undrun sæta að leyfa eigi 2 útlendinga (3 2 regla) í efstu deild karla en segja jafnframt að úrvalsdeild kvenna og 1.deild karla leyfi bara 1 erlendan leikmann inn á í einu. Ekki er minnst á 1.deild kvenna og 2.deild karla enda kannski ekki þess vert að fjalla um það á svona formannafundi, eða hvað? Hér fer ég einfaldlega fram á, eins og allir hugsandi menn og konur í nútíma þjóðfélagi, að við gerum ekki upp á milli kynja.
 
Án þess að dæma menn og konur fyrir kynjamismunun strax þá ætla ég að vona að hér sé um vanhugsun og fljótfærni að ræða að hálfu þeirra er sátu fundinn. Eflaust hafa verið skoðanaskipti á umræddum fundi og ekki allir á sama máli. Tek ég hattinn ofan fyrir þeim félögum er hugsa vel um sína leikmenn hvort sem um strák eða stelpu, karl eða konu er að ræða. Hér hefur undirrituðum fundist sem vanti jafnréttishugsun í hreyfinguna almennt og of margt sem bendir til þess að ekki sé unnið sem best að eflingu kvennastarfs innan Körfuknattleikssambands Íslands og sumra aðildarfélaga þess. Margt er jákvætt sem gert er og við meigum ekki heldur gleyma því góða starfi sem er en mikilvægt er að gæta sanngirnis og jafnréttis.
 
Breytingu á félagaskiptaglugganum fagna ég en þar hefur verið skrúfað fyrir mismunun íslenskra og erlendra leikmanna til félgaskipta sem er gott að mínu mati. Ekki ætla ég að kveða upp um hversu marga útlendinga eigi að leyfa í hverri deild . Hitt er mér nokkur umhugsun samt að niðurstöður á ákvörðunarfundum innan KKÍ endurspeglast of oft af geðþótta og hentisemi félaga hverju sinni fremur en langtíma stefnu um hvernig byggja eigi upp og efla körfuboltann í landinu almennt. “Hvað hentar mínu félagi núna?” er of algeng hugsun.
 
Spurning vaknaði einnig hjá mér hversu mörg félög þeirra um 20 formanna sem mættu á fundinn séu með mfl. kvenna á sinni könnu og hvort stefnan sé að stofna kvennalið þar sem þau eru ekki til staðar í dag. Hvernig fjölgum við kvennaliðum á Íslandi og eflum? Klárlega ekki með þeim hugsunarhætti sem birtist í niðurstöðu formannafundar!
 
Bestu kveðjur
Anton Tómasson, stjórnarmaður í Kkd. Hamars