Þrír leikir fóru fram í kvöld í Reykjanesmóti karla, Keflvíkingar lögðu granna sína í Njarðvík og Stjarnan hafði betur gegn Haukum með flautukörfu. Þá voru Blikar lítil fyrirstaða gegn Grindvíkingum.
Úrslit kvöldsins:
 
Njarðvík 80-86 Keflavík
Spennandi leikur þar sem Keflvíkingar voru ávallt skrefinu á undan. Njarðvíkingar gerðu harða atlögu að gestum sínum á loksprettinum en Keflvíkingar stóðust áhlaupið. Elvar Friðriksson heldur áfram að heilla á undirbúningstímabilinu og gerði 11 stig í Njarðvíkurliðinu í kvöld en Travis Holmes var atkvæðamestur heimamanna. Þá var Styrmir Gauti Fjeldsted grimmur hjá grænum en í liði Keflavíkur voru Jarryd Cole og Magnús Þór Gunnarsson fremstir í flokki við stigaskorunina en Keflvíkingar léku án Arnars Freys Jónssonar í kvöld.
 
Stjarnan 79-77 Haukar
Háspenna lífshætta í Garðabæ. Guðjón Lárusson var hetja Garðbæinga en hann gerði sigurstig leiksins þegar 0,6 sekúndur voru eftir. Stjarnan átti innkast þegar 6 sekúndur lifðu leiks en í sókninni á undan hafði Davíð Páll Hermannsson jafnað leikinn fyrir Hauka í 77-77. Í næstu Stjörnusókn braust Justin Shouse inn í teiginn og lét frá sér stökkskot sem geigaði en Guðjón kom þá aðvífandi, tók sóknarfrákastið og skoraði. Haukar fengu innan við sekúndu til að svara en það dugði ekki til.
 
Grindavík 93-62 Breiðablik
Grindvíkingar léku án Páls Axels Vilbergssonar og Þorleifs Ólafssonar í kvöld.
 
Staðan í Reykjanesmótinu
 
1. Stjarnan – 6 stig
2. Keflavík – 6 stig
3. Grindavík – 4 stig
4. Haukar – 2 stig
5. Breiðablik – 0 stig
6. Njarðvík – 0 stig
 
Næstu leikir í Reykjanesmótinu:
 
Þriðjudagur 27. september klukkan 19:15
Haukar – Breiðablik á Ásvöllum
Njarðvík – Stjarnan í Ljónagryfjunni
Keflavík – Grindavík á Sunnubraut
 
Mynd/ nonni@karfan.is – Frá viðureign Njarðvíkinga og Keflavíkur í Ljónagryfjunni í kvöld.