Derrick Rose leikmaður Chicago Bulls í NBA deildinni hefur nú tjáð sig um verkbannið í NBA deildinni og segir milljarðamæringa og milljónamæringa enga ástæðu hafa til að þrátta um peninga. Þá getur kappinn vel hugsað sér að leika erlendis ef verkbannið dregst á langinn.
,,Það eru aðrir hlutir sem við ættum í raun að vera að þrátta um, peningar ættu ekki að vera vandamálið," sagði Rose en eigendur NBA liðanna vilja lækka rekstrarkostnað liða sinna og þar eru ansi háar summur í umræðunni.
 
,,Ég er að skoða málin og svo gæti farið að ég þyrfti að leika erlendis en ég veit ekki hvar. Það eru margir frábærir staðir í boði en ég hef ekki haft tíma til að skoða þetta ítarlega," sagði Rose en margir myndu eflaust grýta í hann peningum til að fá hann til liðs við sig.