Stjarnan hefur samið við bandaríska bakvörðinn Keith Cothran um að leika með liðinu í Iceland Express deild karla á komandi leiktíð. Cothran er 193 sm. að hæð og lék með Rhode Island Rams í háskólanum og reyndi fyrir sér í þýsku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili. www.stjarnan-karfa.is greinir frá.
Cothran var með 14,3 stig og 3,4 fráköst að meðaltali í leik á sínu síðasta tímabili í háskóla en meiddist á undirbúningstímabilinu í Þýskalandi í fyrra og er því að gera sína aðra atlögu að Evrópuboltanum í ár. Cothran er væntanlegur til landsins á fimmtudagsmorgun og mun því væntanlega þreyta frumraun sína með Stjörnunni gegn Keflavík á föstudag.
 
Karfan.is ræddi stuttlega við Snorra Örn Arnaldsson aðstoðarþjálfara Stjörunnar um nýja leikmanninn:
 
,,Við eyddum miklum tíma í að skoða leikmenn í sumar og teljum að Cothran sé akkúrat leikmaðurinn sem við þurftum í liðið, en það kemur svo bara í ljós þegar hann er kominn til landsins hvernig hann fellur að því sem við erum að gera bæði varnar- og sóknarlega,“ sagði Snorri.
 
Cothran er væntanlegur til Íslands á fimmtudag og verður þá með Stjörnunni á föstudagskvöld þegar liðið leikur gegn Keflavík í Reykjanesmótinu en bæði lið eru ósigruð á mótinu.
 
Mynd/ Cothran í leik með Rhode Island Rams