Daníel Guðni Guðmundsson söðlaði um eftir síðustu leiktíð þar sem hann sagði skilið við silfurlið Stjörnunnar og hélt til náms í Svíþjóð. Kappinn er kominn af stað með IK Eos Lund í næstefstu deild í Svíþjóð, Basket-Ettan.
,,Þetta lið er mest byggt upp frá strákum sem sækja nám við háskólan hérna. Ég er mjög ánægður með þjálfarann, góð drill og æfingar, svo er tempóið alltaf 110% á hverri æfingu. Í raun og veru er þetta betra en ég bjóst við. Liðið á sitt eigið íþróttahús svo það er mjög hentugt að geta mætt þegar maður vill til að æfa, lyfta eða bara læra, lítil fjölskylda þarna í rauninni. Mér líst nokkuð vel á þetta þó svo ég viti ekki mikið um styrkleika deildarinnar. Flest liðin er byggð upp af áhugamönnum eins og mitt lið en einhverjir leikmennirnir eru hálf-atvinnumenn,“ sagði Daníel en IK Eos Lund vann 7 af 20 leikjum sínum í deildinni í fyrra og vonast Daníel til að liðið nái að bæta þann árangur á komandi vertíð.
 
Daníel hefur verið að glíma við meiðsli í mjöðm og hafa þau gerst svæsnari undanfarið. ,,Ég er slæmur hægra megin í mjöðminni, það angraði mig aðeins á síðasta tímabili en núna er þetta búið að vera frekar slæmt. Var að þjösnast á þessu í byrjun en svo eftir einn æfingaleikinn ákvað ég að hvíla þetta og er í meðhöndlun hjá sjúkraþjálfara núna,“ sagði Daníel og sagði marga Íslendinga vera í bænum sem væri fínn í alla staði.