Dómaranefnd KKÍ hefur gefið út áherslur sínar fyrir komandi leiktíð 2011-2012. Á meðal áhersluatriða dómaranefndarinnar er að brugðist skuli hart við síendurteknum mótmælum og tuði. Hin ódauðlega íslenska körfuknattleikslína ,,ertu ekki að grínast?“ gæti einnig komið mönnum í koll þessa leiktíðina.
 
Við sama tilefni voru gefnar út starfsreglur fyrir körfuknattleiksdómara þetta tímabilið og þar segir m.a:
 
Þegar upp koma sérstakar aðstæður að mati dómara er varða slagsmál eða aðra óíþróttamannslega framkomu sem geta varðað brottvísun, er dómara heimilt að notast við upptökubúnað ef hann er fyrir hendi, til að úrskurða í málinu. Lið eiga ekki rétt á að fara fram á að dómarar skoði atvik af upptöku. Fulltrúar liðanna skulu ekki vera viðstaddir þegar dómarar greina upptökuna. Upptakan skal skoðuð strax í kjölfar atviksins og eigi síðar en að loknum viðkomandi fjórðungi.