Að jafnaði 4,7 milljónir manna fylgdust á einhverjum tímapunkti með úrslitaleik Spánverja og Frakka á sjónvarpsstöðinni La Sexta´s live um síðastliðna helgi. Spánverjar urðu eins og kunnugt er Evrópumeistarar og vakti Evrópukeppnin í Litháen mikla athygli heima í stofu.
Á meðan á leik Spánverja og Frakka stóð segir Eurobasket2011.com að þriðjungur allra sjónvarpsáhorfenda á Spáni hafi fylgst með leiknum og þegar mest lét hafi tæpar sex milljónir manna verið að horfa á!
 
Á sama tíma í Frakklandi voru nærri því þrjár milljónir manna að fylgjast með. Í Makedóníu var annarhver íbúi landsins, sem horfði á sjónvarp þann daginn, að fylgjast með viðureign Makedóníu og Litháen í 8-liða úrslitum.
 
Í vel flestum löndum sem sýndu frá Evrópukeppninni reyndust mælingar afar góðar en ekki var getið um tölur á FIBA TV og hversu margir hefðu keypt sér aðgang að leikjunum á netinu.
 
Mynd/ Bo McCalebb leikmaður Makedóníu hefur eflaust haldið mörgum límdum við skjáinn. Magnaður leikmaður hér á ferð.