Fjölnir renndi norður á Krókinn í kvöld og lék við heimamenn í Tindastóli í Síkinu. Leikurinn var lengst af í járnum og staðan jöfn á hálfleik. Smátt og smátt sigu heimamenn framúr í síðari hálfleik, en gestirnir voru þó aldrei langt undan. Heimamenn höfðu svo á endanum 10 stiga sigur 91 – 81 og komu sér upp í 9. sæti deildarinnar.

 
Í lið Tindastóls í kvöld var mættur Svavar Birgisson, sem var búinn að vera í fríi frá körfubolta síðan í vor. Byrjunarlið Stólana var skipað Rikka, Kitanovic, Hayward, Helga Rafni og Sean.  Hjá gestunum voru það Tómas, Ingvaldur, Ben, Ægir og Sindri sem byrjuðu. Bæði lið byrjuðu rólega, en heldur voru gestirnir að hitta betur á meðan heimamenn þurftu fleiri skot fyrir sínar körfur. Þeir björguðu sér hinsvegar á fráköstum.  Jafnt var eftir fyrsta leikhluta, 15 – 15.

Í öðrum leikhluta voru Tindastólsmenn í hálfgerðu bulli framan af. Leikmenn reyndu of mikið upp á eigin spýtur og lítið gekk. Um miðjan leikhlutann var staðan orðin 21 – 28 fyrir Fjölni.  Þá tók Borce leikhlé fyrir Stólana og eftir það fóru þeir að spila betur. Rikki kom með tvo þrista og Sean kláraði fjórðunginn með þristi og náði þar með að jafna leikinn. Staðan í hálfleik var 34 – 34. Sean var stigahæstur Tindastólsmanna með 8 stig, en Tómas var með 9 stig hjá Fjölni. Tindastóll var aðeins með 36% nýtingu í tveggja stiga skotum í fyrri hálfleik á meðan Fjölnir var með 64%. Stólarnir voru hinsvegar komnir með 28 fráköst á móti 12 hjá Fjölni.

Eftir hlé fóru menn aðeins að hitna og hittnin batnaði hjá Stólunum. Dragoljub og Hayward sáu að mestu um stigaskorið í þriðja leikhluta og skoruðu 18 af 24 stigum Tindastóls í leikhlutanum. Fjölnismegin var Tómas heitur og setti niður 3 þrista af mislöngu færi og alls 13 stig. Um miðjan þriðja leikhluta var staðan enn jöfn 44 – 44, en þá fóru Stólarnir að síga framúr. Fjölnir héldu þó í heimamenn og munaði fjórum stigum fyrir síðasta fjórðunginn, 65 – 61.

Tindastóll skoraði 9 fyrstu stig fjórða fjórðungs og náðu 13 stiga forskoti. Eftir leikhlé hjá Fjölni kom karfa frá Tómasi og tveir þristar frá Ægi og Ingvaldi.  Staðan 74 – 69.  Nær komust þó gestirnir ekki og heimamenn héldu 5-10 stiga forskoti út leikinn. Loka staðan 91 – 81. Stigahæstir hjá Tindastóli voru Hayward Fain með 25 stig og 15 fráköst, Kitanovic með 23 og Sean með 17. Hjá Fjölni var Tómas Tómasson með 26 stig og Ægir með 16.

Dómarar í kvöld: Jón Guðmundsson og Eggert Þór Aðalsteinsson og skiluðu sínu ágætlega.

 
Texti: Jóhann Sigmarsson
Mynd: Hjalti Árnason / Myndasafn – Hayward Fain skemmti áhorfendum nokkrum sinnum í kvöld