Snæfellingar hafa verið á skriði undafarið og unnið 7 af 8 leikjum sínum í deildinni og í heimsókn til í þeirra í kvöld kom hið stórgóða lið Stjörnunnar úr Garðabæ sem er ekki langt undan í 4. sæti með 5 sigra.
Byrjunarliðin.
Snæfell: Nonni, Sean, Ryan, Emil Þór, Pálmi.
Stjarnan: Justin, Jovan, Marvin, Fannar, Ólafur.
 
Leikurinn hófst jafn og skemmtilegur og liðin skoruðu á víxl. En um miðbik fyrsta fjórðungs smelltu Sean, Nonni og Pálmi sínum þristinum hver og juku forystunua um 9 stig 18-9 fyrir Snæfell. Stjörnumenn hertu þó róðurinn eftir slakar sóknir á kafla og nýttu betur skot og sendingar og jöfnuðu 21-21. Justin setti einn þrist á flautu og leiddi Stjarnan 23-24 eftir fyrsta hluta en Justin hafði verið að rífa liðið áfram undir lokin.
 
Jovan Zdravevski setti nokkra funheita fyrir Stjörnuna og Snæfell var að hamast við að hanga í þeim en héngu þó. Kjartan Atli fékk villu fyrir að hanga bókstaflega á höndum Ryan Amoroso en Ryan uppskar óíþróttamannlega villu fyrir að reyna að losa sig. Mikið var um pústra og leikurinn harðnaði og voru Stjörnumenn að fá dæmdar á sig sóknarvillur en Snæfell náði að leiða 57-54 í hálfleik.
 
Í stigaskori voru Snæfellingar með Pálma í 15 stigum og 4 fráköstum, Nonna Mæju og Ryan Amoroso í 11 stigum en þeir voru að skipta þessu jafanar á milli sín á meðan Justin Shouse var kominn með 18 stig 5 fráköst og 4 stoðsendingar fyrir Stjörnuna og Jovan Zdravevski 12 stig og voru þeir c.a þeir einu sem drógu vagninn.
 
Snæfell náði að koma sér í 12 stiga forystu 75-63 um miðjan þriðja hluta og var Justin að hanga mikið á boltanum sem skilaði Stjörnunni engu en Emil Þór tók góða vörn á hann á kafla og átti flotta sóknarspretti einnig. Snæfell komst svo í 20 stigin 89-69 með gríðalega flottum leik þar sem ekkert virtist stoppa Pálma Frey að stjórna liðinu áfram. Kjartan Atli setti þrjú stig á síðustu sekúndum fjórðungsins og staðan 89-72 fyrir heimamenn í Snæfelli.
 
Snæfell átti ekki í erfiðleikum með að halda forystunni þó fjórði hluti væri jafn framan af en Stjörnumenn réðu lítið við það að saxa á. Egill Egils kom heitur af bekknum og nýtti sínar mínútur vel í leiknum, hjá Stjörnunni kom Marvin í staðinn fyrir Jovan og Justin var skugginn af sjálfum sér í seinni hálfleik og varnalega hrundi flest. Snæfell var hreinlega of stór biti fyrir Stjörnuna í síðari hálfleik og Snæfell heldur sigurgöngunni áfram eftir þennan leik sem endaði 114-96.
Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson og Björgvin Rúnarsson.
 
Ljósmynd/Þorsteinn Eyþórsson: Pálmi Freyr var drjúgur í liði Snæfells gegn Stjörnunni.
 
Umfjöllun: Símon B. Hjaltalín.