KR rétti úr kútnum í kvöld eftir tap í Hveragerði í síðustu umferð. Af hverju að minnast á þann ósigur á kvöldi KR sigurs? Jú, Fjölnismenn mættu með svæðisvörn, þá sömu og Hamar beitti, og freistuðu þess að klekkja á KR en það vildu heimamenn ekki heyra á minnst. Fyrri hálfleikur var frábær skemmtun en sá síðari var eign KR þökk sé sterkum varnarleik heimamanna. Lokatölur 93-77 KR í vil sem hafa leikið þrjá heimaleiki og unnið þá alla og eini ósigur liðsins kom á útivelli.
Ben Stywall gerði fyrstu sex stig Fjölnis áður en KR komst á blað en Finnur Magnússon opnaði reikninginn fyrir heimamenn með sóknarfrákasti, körfu og villu að auki. Fjölnismenn mættu með svæðisvörn frá fyrstu mínútu minnugir hrakfara KR gegn Hamri og þeirra svæðisvörn í Hveragerði.
 
Skytta á borð við Brynjar Þór bíður ekki átekta gegn svæðisvörnum og setti niður þrjá þrista og breytti stöðunni í 20-11 og þá tók Örvar Kristjánsson leikhlé fyrir gestina. KR-ingar voru allir heitir í upphafsleikhlutanum og Marcus Walker setti tvo þrista og hélt KR í forystunni 26-22 að loknum fyrsta leikhluta, augljós batamerki voru þó á svæði Fjölnis með hverri mínútunni sem leið.
 
Í fyrri hálfleik var leikurinn að stærstum hluta fyrir utan þriggja stiga körfuna, KR hélt áfram að leiða fyrstu mínúturnar í öðrum leikhluta en Fjölnismenn neituðu að láta skilja sig eftir og komust loks yfir þegar Trausti Eiríksson setti þrist og breytti stöðunni í 35-37. Félagi Trausta úr Borgarnes, Sigurður Þórarinsson, var að fá fínan séns í fyrri hálfleik og nýtti sínar mínútur vel og á lokaspretti fyrri hálfleiks gerðu Fjölnismenn allt rétt, léku grimma vörn og fóru loks að sækja inn í teig og uppskáru því forystu, 43-47 í leikhléi.
 
Ægir Þór Steinarsson var kominn með 11 stig í liði Fjölnis í hálfleik en hjá KR var Marcus Walker einnig með 11 stig.
 
KR-ingar þéttu vörnina í síðari hálfleik og Fjölnismenn náðu aðeins að gera 13 stig í þriðja leikhluta gegn 21 frá KR og staðan því 64-60 fyrir röndótta og lokaspretturinn framundan. Sindri Kárason átti fína spretti fyrir Fjölni í þriðja leikhluta en löng fjarvera leikstjórnandans Ægis Þórs kostaði sitt en kappinn var kominn í villuvandræði. KR-ingar léku þétt allir sem einn og samheldnin hélt áfram inn í fjórða leikhluta.
 
Ólafur Már Ægisson kom KR í 76-65 með þriggja stiga körfu og hægt og bítandi stakk KR af, þeir gerðu það ekki með neinum látum heldur sterkri vörn sem Fjölnismenn áttu erfitt með að brjóta á bak aftur. Ægir Þór fór svo með fimm villur af velli hjá Fjölni þegar þrjár mínútur voru til leiksloka og lokatölur reyndust 93-77 KR í vil. Verðskuldaður sigur Vesturbæinga sem einfaldlega voru sterkari síðari 20 mínútur leiksins.
 
Finnur Magnússon var stigahæstur KR-inga í kvöld með 19 stig og 10 fráköst, honum næstur var Marcus Walker með 17 stig en Pavel Ermolinskij kom víða við í tölfræðinni að vanda með 15 stig, 11 fráköst og 11 stoðsendingar. Brynjar Björnsson og Ólafur Már Ægisson áttu einnig fína spretti en hjá Fjölni var Ægir Þór Steinarsson með 14 stig og 12 stoðsendingar og Tómas Heiðar Tómasson 13 stiga. Ben Stywall, Trausti Eiríksson og Magni Hafsteinsson áttu sínar stundir í leiknum.
 
Heildarskor:
 
KR: Finnur Atli Magnússon 19/10 fráköst, Marcus Walker 17/5 stoðsendingar, Pavel Ermolinskij 15/11 fráköst/11 stoðsendingar, Brynjar Þór Björnsson 14/4 fráköst, Ólafur Már Ægisson 9, Fannar Ólafsson 8/8 fráköst, Hreggviður Magnússon 4, Jón Orri Kristjánsson 3/7 fráköst, Skarphéðinn Freyr Ingason 2, Martin Hermannsson 2, Ágúst Angantýsson 0, Matthías Orri Sigurðarson 0.
 
Fjölnir: Ægir Þór Steinarsson 14/5 fráköst/12 stoðsendingar/5 stolnir, Tómas Heiðar Tómasson 13/5 fráköst, Ben Stywall 10/8 fráköst, Ingvaldur Magni Hafsteinsson 9, Trausti Eiríksson 8/7 fráköst, Arnþór Freyr Guðmundsson 7/5 fráköst, Sindri Kárason 5, Hjalti Vilhjálmsson 4, Sigurður Þórarinsson 4, Einar Þórmundsson 3, Jón Sverrisson 0, Elvar Sigurðsson 0.
 
Dómarar: Kristinn Óskarsson, Jóhann Gunnar Guðmundsson
 
Ljósmynd/ Finnur Magnússon átti góðan dag í liði KR með 19 stig og 10 fráköst.
 
Myndasafn og umfjöllun: Jón Björn Ólafsson – nonni@karfan.is