Þór Akureyri deilir nú efsta sæti 1. deildar karla með nöfnum sínum úr Þorlákáshöfn eftir 68-81 sigur á Breiðablik í Smáranum í kvöld. Magnaður þriðji leikhluti Þórsara lagði grunninn að sigrinum en Þór vann þann fjórðung 5-23 með flottum varnarleik.
Af hverju í andskotanum var ég ekki í byrjunarliðinu… gæti Arnar Pétursson hafa verið að segja á upphafsmínútunum í kvöld. Arnar byrjaði á bekknum og Norðlendingar byrjuðu 6-14 en þegar hlaupagikkurinn ungi kom inn á völlinn lifnaði verulega yfir heimamönnum. Arnar gerði 9 stig í röð fyrir Blika sem leiddu 30-17 eftir fyrsta leikhluta en viðsnúningurinn hófst í stöðunni 12-16 fyrir Þór þegar Arnar kom inn á völlinn og Blikar gerðu næstu 18 stig gegn einu frá Þórsurum.
 
Í fyrri hálfleik var sóknarleikur Þórsara ansi einsleitur þar sem Konrad Tota fór fyrir gestunum. Sókn sem lauk ekki í höndum Tota var algert undantekningartilfelli. Þorsteinn Gunnlaugsson fékk svo sína fjórðu villu í liði Blika þegar þrjár mínútur voru til hálfleiks og hélt á bekkinn. Þórsarar voru þó að narta í hæla heimamanna og Bjarni Konráð Árnason, fyrrum liðsmaður Blika, jafnaði leikinn fyrir Þórsara í 37-37 með þriggja stiga körfu en Blikar sigu framúr á ný og leiddu 47-42 í hálfleik.
 
Þórsarar settu í lás í vörninni í þriðja leikhluta, voru fljótir að komast yfir í 47-51 en þá fékk Konrad Tota sína fjórðu villu og fór skömmu síðar af velli til að forðast þá fimmtu. Litlu skipti brotthvarf Tota því Þórsarar fóru á kostum með glæsilegum varnarleik, að sama skapi voru Blikar eins og nýstofnað 2. deildar lið í þriðja leikhluta, vörnin hriplek og hugmyndasnauðar sóknir sáust trekk í trekk.
 
Þórsarar leiddu 52-65 að loknum þriðja leikhluta og unnu þar með leikhlutann 5-23 en rúmar fimm mínútur liðu áður en heimamenn náðu að skora í fjórðungnum. Reyndist þessi frammistaða Þórsara hafa úrslitaáhrif í leiknum því Blikar náðu ekki að bíta almennilega frá sér eftir þetta.
 
Steinar Arason minnkaði muninn í 55-70 með þriggja stiga körfu fyrir Blika en Þórsarar voru komnir á bragðið og kláruðu dæmið 68-81. Konrad Tota var í sérflokki í kvöld og áttu Blikar engin svör við honum, Óðinn Ásgeirsson var einnig sprækur sem og Wesley Hsu en í liði Blika átti Arnar Pétursson fínar rispur og flestir að sína ágæt tilþrif í fyrri hálfleik en Blikar allir sem einn ullu vonbriðgum í síðari hálfleik.
 
Því miður var ekki tekin tölfræði á leiknum og því ekki hægt að segja til um stigahæstu menn. Ef einhver er svo ríkur að búa yfir þeim upplýsingum t.d. frá skýrslu leiksins væri vel þegið að fá senda stigahæstu menn á karfan@karfan.is