Skallagrímur og Valur mættust í 1. deild karla í gærkvöldi en leikið var í Borgarnesi. Borgnesingar voru með yfirhöndina framan af leik en lokaspretturinn varð æsispennandi þar sem lokaskot Valsmanna var bænarskot frá miðjum vellinum og fór í körfuhringinn en geigaði. Lokatölur 85-84 Skallagrím í vil sem nú hefur unnið tvo fyrstu leiki sína í deildinni, gegn Hetti og Valsmönnum.
Eins og fyrr greinir byrjuðu Borgnesingar mjög vel og komust í 33-18 en Valsmenn sigu hægt og bítandi nærri heimamönnum. Svo fór að lokum að Borgnesingar áttu tvö vítaskot í stöðunni 85-84 þegar 3,6 sekúndur voru til leiksloka. Heimamenn misnotuðu bæði vítin, Valsmenn náðu frákastinu og Calvin Wooten náði lokaskoti fyrir Valsmenn frá miðjum vellinum, skotið fór í hringinn en vildi ekki niður og Borgnesingar fögnuðu sigri.
 
Góð mæting var í Fjósið í gærkvöldi eða um 200 manns sem létu vel í sér heyra.
 
Wooten gerði 35 stig og tók 9 fráköst í liði Vals en hjá Skallagrím var Darrell Flake með 28 stig og 7 fráköst. Nikola Kuga gerði svo 19 stig og tók 11 fráköst hjá Borgnesingum.