,,Alltaf gaman að komast svona ofarlega,“ sagði Sverrir Þór þegar hann komst á topp Iceland Express deildar kvenna með Njarðvíkurliðið eftir sigur á Grindavík í Ljónagryfjunni. Njarðvíkingar leiddu allan leikinn og unnu verðskuldaðan sigur. Staða liðsins er nú töluvert önnur en spekingar höfðu ætlað fyrir leiktíðina.
,,Við höfum meiri trú á okkur en það að vera í botnsætunum, við höfum ákveðin markmið sem við erum á góðri leið með og í fínni stöðu í augnablikinu en ballið er rétt að byrja,“ sagði Sverrir sem rétt eins og Jóhann Þór Grindavíkurþjálfari hefur á tiltölulega ungu og efnilegu liði að skipa.
 
,,Það má vel vera og Grindavík er með duglegar stelpur og Jóhann er að gera fína hluti með þær. Grindavík gafst aldrei upp og ég var alltaf að bíða eftir kaflanum þar sem við kæmumst 20 stig yfir en Grindavík náði þessu alltaf aftur niður í 8-10 stig. Þetta var góður sigur í kvöld en samt vorum við langt frá okkar besta sóknarlega,“ sagði Sverrir sem getur ekki mikið lengur farið í grafgötur með það að hann hefur á að skipa einum sterkasta leikmanni deildarinnar í Ditu Liepkalne.
 
,,Ég er mjög ánægður með báða útlendingana mína og liðið í heild, útlendingarnir eru leiðtogar fyrir hina leikmennina og eru ekkert með boltann endalaust. Þetta er hlutur sem ég er ánægður með og blandan í liðinu er flott, við erum með þessa tvo erlendu leikmenn, Ólöfu, Ingibjörgu Vilbergs og Önnu Maríu og svo fullt af stelpum 16-18 ára svo við erum á góðu róli,“ sagði Sverrir en er það raunhæft fyrir Njarðvíkurliðið að stefna á þátttöku í toppbaráttunni í vetur?
 
,,Ef við höldum áfram að ná í sigra þá verðum við í toppbaráttunni en ég ætla ekki að vera með neinar yfirlýsingar en við tökum bara einn leik fyrir í einu og reynum að halda áfram á þessu góða róli og höldum okkur við okkar markmið,“ sagði Sverrir en fékkst ekki til að útlista nánar hver þau væru.
 
Ljósmynd/ Sverrir ásamt spúsu sinni Auði Jónsdóttur fyrrum leikmanni Njarðvíkinga.