Heldur var það rislítill leikur sem boðið var upp á í Síkinu í kvöld. Grindavíkingar voru mættir með tvo sigra á bakinu, en heimamenn stigalausir eftir tvær umferðir. Það vantaði tvo sterka leikmenn vegna meiðsla hjá Stólunum í kvöld, þá Friðrik Hreinsson og Helga Frey Margeirsson. Hinsvegar var Páll Axel mættur aftur í lið Grindavíkur eftir meiðsl. Fyrir heimamenn byrjuðu Josh, Hreinn, Dragoljub, Halldór og Helgi Rafn. Hjá gestunum voru það Andre, Ómar, Páll Axel, Ryan og Guðlaugur sem hófu leik.
Liðin fóru rólega af stað í stigaskorun í fyrsta leikhluta. Eftir fjóra og hálfa mínútu var staðan 2 – 4, en þá fóru skotin að detta hjá Grindavík og þeir skoruðu 10 stig í röð. Stólarnir náðu aðeins að klóra í bakkann, en staðan að loknum fyrsta fjórðungi 10 – 16.
 
Bæði lið spiluðu áfram þokkalegasta varnarleik í öðrum leikhluta og lentu liðin í vandræðum sóknarlega. Heimamenn voru þó sínu meir í vandræðum. Þeir héldu í gestina framan af, en góður kafli Grindvíkinga í lok fyrri hálfleiks tryggði þeim 11 stiga forskot sem er dágott þegar skorið er aðeins 23 – 34. Hjá Grindavík var Páll Axel kominn með 10 stig og Ólafur með 7. Tindastólsmegin var Dragoljub með 7 og Dimitar 6.
 
Í þriðja leikhluta hélt sami barningurinn áfram. Stólarnir komu muninum niður í sjö stig um miðjan leikhlutann, en aftur áttu gestirnir góðan kafla síðustu tvær mínútur fjórðungsins og skoruðu þá 2 – 12 á heimamenn. Staðan orðin 38 – 58 og ljóst að Grindavík var að hirða bæði stigin í kvöld. Meiri hiti var hlaupinn í menn enda hart barist oft í teignum. Sérstaklega voru heimamenn ósáttir með framgöngu Ryan Pettinella.
 
Síðasti leikhlutinn var í raun formsatriði, en heimamenn vildu ekki gefast upp baráttulaust og reyndu að bæta sinn hlut. Munurinn hélst þó í kringum 20 stigin út leikhlutann og gátu Grindvíkingar leyft sér að skipta öllum bekknum inná uppúr miðjum leikhlutanum. Áfram var þó hart barist og tókust þeir Helgi Rafn og Ryan vel á í teignum sem endaði með að Helgi Rafn fékk óíþróttamannslega villu sem var hans fimmta, en sömu leið hafði Dragoljub farið stuttu áður. Róaðist þá heldur leikurinn og gestirnir sigldu öruggum sigri í höfn. Lokatölur 55 – 76 í leik þar sem krafturinn bar fegurðina allt of oft ofurliði.
 
Grindavíkurliðið hefur oft verið sterkara í heimsóknum sínum á Krókinn, en heimamenn voru líka ekki mikil hindrun að þessu sinni. Varnarleikur Tindastóls var oft og tíðum ágætur, en sóknarlega þurfa þeir að bæta sig töluvert mikið. Bestir hjá Grindavík voru Páll Axel með 17 stig og Andre með 15. Þá áttu Ómar Sævarsson með 12 stig, Ólafur Ólafsson 12 stig og Ryan Pettinella með 10 fráköst góðan leik. Hjá Stólunum var Josh Rivers með 15 stig og Dragoljub 14 og 7 fráköst. Dimitar var einnig sprækur og hitti ágætlega.
 
Stigaskor Tindastóls: Josh 15, Dragoljub 14, Dimitar 12, Helgi Rafn 6, Hreinn 6 og Einar Bjarni og Pálmi 2 stig hvor.
 
Grindavík: Páll Axel 17, Andre 15, Ómar 15, Ólafur 15, Ryan 11, Guðlaugur 5, Björn 4 og Þorleifur 2.
 
Nokkrar tölur úr leiknum: 2-6, 5-14, 10-16 – 16-23, 20-27, 23-34 – 32-39, 36-46, 38-58 – 43-62, 50-71, 55-76.
 
Dómarar leiksins voru þeir Rögnvaldur Hreiðarsson og Björgvin Rúnarsson.
 
 
Texti: JS.
Ljósmynd: Hjalti Árnason.