Það var vel mætt og mikil stemning í íþróttahöllinni í Þorlákshöfn föstudaginn síðastliðinn þann 8.október þegar Þór Þorlákshöfn mætti félögum sínum úr Ármanni. Leikurinn hófst fjörlega og fyrstu stig leiksins skoraði Sverrir Kári Karlsson bæði úr vítum. Leikmenn Ármann mættu hrikalega einbeittir og staðráðnir í að standa sig í fyrsta leik tímabilsins og komust þeir í 4-10.
Heimaliðið Þór Þ. með marga fríska leikmenn innanborðs létu þessa byrjun sína ekki hafa áhrif á sig og héldu sínum leik áfram og með góðri pressuvörn og hröðum leik breyttu þeir stöðunni úr 4-10 í 20-10 á tæpum fjórum mínútum. Þar fór serbinn Vladimir Bulut mikinn og setti 11 stig af þessum 16 stigum í viðsnúningnum. Þegar þarna var komið við sögu voru þórsarar með tögl og hagldir í leiknum og staðan svo eftir fyrsta leikhluta var 30-14 fyrir Þór. Það var svo viðeigandi að títtnefndur Vladimir Bulut skoraði fyrstu körfu annars leikhluta og var hann þá kominn með 20 stig. Leikmenn Ármanns fundu enga smugu á góðri pressuvörn þórsara og voru mikið að skjóta fyrir utan sem bar ekki mikinn árangur og Bjarki Gylfason leikmaður Þór var að hirða öll þessi fráköst af sinni alkunnu snilld. Staðan í hálfleik var svo 60-30 fyrir heimamenn í grænu búningunum og stigahæsti leikmaður Þórs voru Vladimir Bulut með 28 stig og hjá Ármanni/Þrótt var gamla kempan Halldór Kristmannsson með 15 stig.
 
Síðari hálfleikurinn byrjaði eins og sá fyrri endaði með hörku spilamennsku Þórs og virtist eins og þeir myndu algjörlega kaffæra Ármenninga. Þegar um 3 mínútur voru liðnar af þriðja leikhluta tók Benedikt Guðmundsson hinn skeleggi þjálfari Þórs serbann Vladimir Bulut útaf, en þá hafði hann skilað fínu dagsverki með 33 stig og kom hann ekkert meira við sögu. Gaman var að sjá að einungis var spilað á heimamönnum hjá Þór það sem eftir lifði leiks fyrir utan hinn unga Hvergerðing Hjalta Val. Staðan eftir 3 leikhluta var 87-47 og sigur Þórsara í raun löngu orðinn öruggur.
 
Gaman var þó að sjá að leikmenn Ármanns gáfust aldrei upp og héltu ótrauðir áfram sínum leik og eiga þeir hrós skilið fyrir það. Það var sérstaklega einn leikmaður Ármanns sem átti mjög flottan leik í síðasta fjórðungnum það var Sverrir Kári Karlsson fyrrum Herra Ísland sem skoraði í kringum 10 stig á mjög stuttum tíma og hafði gaman af því að stuðningsmannasveit Þórs sendu honum léttar háðsglósur og efldist hann bara við þetta. Leikurinn fjaraði síðan út og endaði með flottum sigri Þórs 101-73. ,,Þetta var virkilega flottur leikur hjá okkur og sýnir það að við ætlum okkur stórt á þessu keppnistímabili, allir voru að leggja sitt af mörkum og við vorum að spila hraðan bolta, flotta vörn og allir voru að spila vel og í lokin vil ég þakka Græna Drekanum fyrir frábæran stuðning, þeir eiga mikið í þessum sigri,“ sagði Þorsteinn Már Ragnarsson í samtali við greinarhöfund í lokin.
 
Virkilega gaman var að sjá hve margir lögðu leið sínu í íþróttahöllina í Þorlákshöfn og mikil stemning var í höllinni og átti stuðningsmannasveit Þórs, Græni Drekinn stóran þátt í stemningunni.
 
Í liði Þórs áttu allir skínandi leik og menn spiluðu fyrir hvorn annan og er þetta virkilega spennandi, ungt lið sem gaman verður að fylgjast með í vetur. Leikmenn Ármanns áttu ekki sinn besta leik þetta kvöldið, en það býr mikið í þessu liði og verður spennandi að fylgjast með hvort að þeir blandi sér í keppni um sæti í úrslitakeppninni að ári.
 
Stigaskor:
Þór: Vladimir Bulut 33, Baldur Þór Ragnarsson 14/10 stoðsendingar, Bjarki Gylfason 13/15 fráköst, Þorsteinn Már Ragnarsson 13, Emil Karel Einarsson 10/6 fráköst, Hjalti Valur Þorsteinsson 8, Ágúst Örn Grétarsson 7, Eric James Palm 3, Albert Myles 5 fráköst, Magnús Sigurðsson 3 stoðsendingar.
 
Ármann: Halldór Kristmannsson 19, Sverrir Kári Karlsson 14/5 fráköst, Steinar Aronsson 12, Bjarki Þór Alexandersson 9, Þorsteinn Húnfjörð 7, Oddur Jóhannesson 4/5 fráköst, Helgi Hrafn Þorláksson 4, Hermann Maggyarson 2/4 fráköst, Sverrir Gunnarsson 2/4 fráköst, Aron Kárason 3 stoðsendingar.
 
Umfjöllun:Bjarni Már Valdimarsson
Ljósmynd/ Úr safni: Þorsteinn Ragnarsson gerði 13 stig fyrir Þórsara