Njarðvíkingar urðu fyrstir liða til að leggja Hólmara í Iceland Express deildinni þetta tímabilið er liðin mættust í Ljónagryfjunni. Friðrik Erlendur Stefánsson var fyrirferðarmikill í liði heimamanna sem þó voru næstum búnir að glutra sigrinum frá sér á lokasprettinum. Snæfell gerði heiðarlega lokaatölu að sigrinum en uppskáru ekki fyrir erfiði sitt. Antonio Houston gerði 20 stig í liði Njarðvíkinga en þeirra besti maður var Friðrik Stefánsson sem hélt Ryan Amoroso ísköldum allan fyrri hálfleikinn.
Engan bilbug var að finna á Njarðvíkingum í upphafi leiks þrátt fyrir að Jóhann Árni Ólafsson væri á bekknum í borgaralegum klæðum. Heimamenn komust í 9-2 þar sem Friðrik Erlendur Stefánsson gerði 6 af 9 fyrstu stigum heimamanna. Kappinn byrjaði vel en er þó ekki enn kominn með diesel á tankinn því hann fór fljótt af velli og inn kom Egill Jónasson í hans stað.
 
Rúnar Ingi Erlingsson kom Njarðvíkingum í 14-7 með þriggja stiga körfu og lítt gekk hjá gestunum í sóknarleiknum sem var stirður og hugmyndasnauður gegn þéttri vörn heimamanna. Ágúst Dearborn og Egill Jónasson komu frískir af Njarðvíkurbekknum og heimamenn leiddu 27-17 að loknum fyrsta leikhluta.
 
Í upphafi annars leikhluta fékk Ryan Amoroso sína þriðju villu í liði Snæfells og var allt annað en sáttur við stöðuna, málið var svo sem ekki flókið, Friðrik Stefánsson var að pakka honum saman. Í stöðunni 34-25 var gestunum nóg boðið, Emil Þór Jóhannsson fór loks að láta til sín taka og mætti með sex Snæfellsstig á skömmum tíma. Hólmarar skiptu einnig í svæðisvörn sem gafst ágætlega en þeir áttu þó fá svör við Friðriki Stefánssyni sem nánast einokaði teiginn.
 
Með góðu áhlaupi tókst Snæfell að minnka muninn í 39-37 en þá spýttu þeir grænu í lófana. Lokaspretturinn reyndist 15-3 sprettur hjá heimamönnum sem stálu boltanum í síðustu þremur Snæfellssóknunum og Antonio Houston gerði 5 síðustu stig hálfleiksins, fyrst varði hann skot og skoraði svo í teignum á hinum endanum og í síðustu sókninni setti hann niður flautuþrist. Njarðvíkingar leiddu því 54-40 í hálfleik þar sem Houston var með 13 stig í liði Njarðvíkinga og Friðrik Stefánsson 12. Hjá Hólmurum voru þeir Ryan og Pálmi Freyr báðir með 8 stig.
 
Ryan Amoroso opnaði síðari hálfleik með þriggja stiga körfu og gestirnir úr Stykkishólmi voru umtalsvert betri en heimamenn sem héldu auðsjáanlega að leikurinn væri unninn eftir góðan lokasprett í fyrri hálfleik. Hólmarar byrjuðu 5-15 og staðan 59-58 Njarðvík í vil sem tóku leikhlé áður en Snæfell komst lengra.
 
Rúnar Ingi Erlingsson sleit Njarðvík frá í 66-58 með þriggja stigakörfu og gestunum tókst ekki að brjóta ísinn, jafna leikinn eða komast aðeins fram úr heimamönnum. Vörn Hólmara var þó allt önnur í þriðja leikhluta heldur en í fyrri hálfleik og vann Snæfell leikhlutann 13-23 en Njarðvíkingar voru þó yfir og leiddu 67-63 fyrir lokasprettinn.
 
Framan af fjórða leikhluta virtist fátt ógna forystu Njarðvíkinga sem náðu fljótt upp 10 stiga mun 75-65. Gestirnir neituðu þó að gefast upp og nánast lokuðu vörninni sinni síðustu fimm mínútur leiksins. Lauris Mizis minnkaði muninn í 84-79 þegar hann skoraði og fékk villu að auki þegar rúm mínúta var til leiksloka. Meistararnir voru komnir á bragðið og þjörmuðu vel að heimamönnum.
 
Ryan Amoroso, sem var allt annar maður í síðari hálfleik en í þeim fyrri, náði að minnka muninn í 86-85 á vítalínunni þegar um 13 sekúndur voru til leiksloka. Óíþróttamannslega villa hafði verið dæmd á Antonio Houston fyrir brotið á Ryan sem bæði stúkan og leikmenn Njarðvík mótmæltu harðlega. Ryan setti bæði vítin og Snæfell fór svo beint í innkastið. Jón Ólafur Jónsson var ekki nema tvær sekúndur að missa boltann úr röðum Snæfells þegar hann steig á hliðarlínuna og úr varð vítaeltingaleikur þar sem bæði lið voru komin með fimm liðsvillur. Njarðvík hafði þar betur þar sem Guðmundur Jónsson skoraði síðustu stig leiksins af línunni 89-87 Njarðvík í vil. Sean Burton brunaði svo upp völlinn og hugðist senda boltann inn í teiginn en Páll Kristinsson komst inn í sendinguna og Njarðvíkingar fögnuðu fyrstir liða sigri á Snæfell.
 
Njarðvík: Antonio Houston 20/6 fráköst, Friðrik E. Stefánsson 17/9 fráköst, Rúnar Ingi Erlingsson 17/6 fráköst/6 stoðsendingar, Guðmundur Jónsson 14, Páll Kristinsson 8/6 fráköst, Kristján Rúnar Sigurðsson 6, Hjörtur Hrafn Einarsson 3, Egill Jónasson 2/6 fráköst, Lárus Jónsson 2, Óli Ragnar Alexandersson 0, Ólafur Helgi Jónsson 2 0, Ágúst Hilmar Dearborn 0.
 
Snæfell: Sean Burton 23, Ryan Amaroso 23/7 fráköst, Jón Ólafur Jónsson 13/12 fráköst, Lauris Mizis 10, Pálmi Freyr Sigurgeirsson 8/4 fráköst/5 stoðsendingar/6 stolnir, Emil Þór Jóhannsson 6, Sveinn Arnar Davíðsson 2, Atli Rafn Hreinsson 2, Daníel A. Kazmi 0, Egill Egilsson 0, Gunnlaugur Smárason 0, Kristján Andrésson 0.
 
Dómarar: Eggert Þór Aðalsteinsson, Georg Andersen
 
Ljósmynd/ Páll Kristinsson fagnar í leikslok en hann komst inn í lokasendingu hjá Sean Burton og leiktíminn rann út og Njarðvíkursigur í höfn.