Grindavíkurstúlkur tóku á móti Hamri í Röstinni í Grindavík í Iceland Express deild kvenna í gær. Leikurinn var geysilega spennandi frá upphafi til enda og var það frábær þriðji leikhluti hjá Hamarsstúlkum sem lagði línurnar að þeim sigri. Grindavík er nú í 6.sæti með einn sigur og þrjú töp en Hamar í 2.sæti með fjóra sigra og ekkert tap.
Leikurinn fór fjörlega af stað og var það Jaleesa Butler sem skoraði fyrstu körfu leiksins. Það voru þó Grindavíkurstúlkur sem tóku frumkvæðið eftir það og voru yfir restina af leikhlutanum. Þær voru ákveðnari að sjá en Hamarsstúlkur héldu í þær með þriggja stiga skotum sínum. Leikhlutinn endaði 21-18 fyrir heimastúlkum.
 
Seinni leikhlutinn hélt uppteknum hætti og virtust Grindavíkurstúlkur ákveðnari en gestirnir að sunnann. Hamar hélt sér ennþá inní leiknum með þriggja stiga skotum. Þegar Grindavíkurstúlkur virtust ætla skilja gestina eftir i reyk fóru Hamarsstúlkur að pressa allan völlinn og virtist heimastúlkurnar eiga í erfiðleikum með að leysa hana. Með nokkrum einföldum körfum náðu gestirnir að laga stöðuna rétt fyrir hálfleik og endaði hálfleikurinn með körfu frá Charmaine Clark. Lokatölur fyrrihálfleiks var 39-35 heimastúlkum í vil.
 
Atkvæðamestar fyrir Grindavík var Charmaine Clark með 13 stig og 4 fráköst og Harpa Hallgrímsdóttir með 9 stig og 4 fráköst. Fyrir Hamar var það Slavica Dimovska með 14 stig Jaleesa Butler með 6 stig og 6 fráköst.
 
Ágúst virðist hafa tekið góða hálfleiksræðu hjá Hamarsstúlkum því þær komu mun sterkari til leiks í seinni hálfleik og skoruðu fyrstu 13 stigin gegn engum hjá heimastúlkum. Loks þegar boltinn rataði ofaní körfuna hjá heimastúlkum voru liðnar 6mínutur af leikhlutanum og var staðan þá orðin 41-49 fyrir gestina. Ekkert virtist ganga hjá heimastúlkum fyrr en Yrsa Ellertsdóttir setur niður þriggja stiga körfu og virtist það kveikja í heimastúlkum og náðu þær að minnka stöðuna niður í 4 stig (50-54) þegar 40 sekúndur voru eftir. Á þessum 40 sekúndum tókst þó gestunum að skora 5 stig, villa og karfa góð og svo eitt “lay-up” og endaði því leikhlutinn 51-59 gestunum i vil.
 
Síðasti fjórðungurinn var mjög jafn og skorað á báðum endum. Það var ekki fyrr en á síðustu 4 mínútunum sem að Grindavíkurstúlkur gerðu sig líklegar til þess að komast yfir þær og náðu þær að minnka þetta í 3 stig. Þá var 30 sekúndur eftir og þær klúðruðu sinni síðustu sókn og Hamarsstúlkur kláruðu þetta á línunni. Lokatölur voru 75-81 gestunum í vil.
 
Atkvæðamestar fyrir heimastúlkur voru Charmaine Clark með 21 stig og 4 stoðsendingar og Helga Hallgrímsdóttir með 19 stig, 5 fráköst og 6 stoðsendingar. Hjá Hamarsstúlkum var það Slavica Dimovska með 25 stig og Jaleesa Butler með 22 stig og 15 fráköst.
Ljósmynd/Sævar Logi – Slavica gerði 25 stig í liði Hamars gegn Grindavík í gær.
 
Umfjöllun: Marteinn Guðbjartsson