Það var ágætlega mætt í íþróttahúsið á Egilsstöðum í gær þegar heimamenn í Hetti tóku á móti Skallgrímsmönnum úr Borgarnesi í 1. umferð 1. deildar karla í körfuknattleik. Ekki var laust við því að heimamenn væru nokkuð forvitnir að sjá sitt lið mæta til leiks enda er það gjörbreytt frá síðasta tímabili.
Liðið er nú nær eingöngu skipað heimamönnum að viðbættum bandarískum leikmanni, Daniel Terrel sem mætti til landsins á leikdag og stóð sig mjög vel miðað við það. Höttur hefur endurheimt stigavélina Viðar Örn Hafsteinsson frá Hamri og einnig Björn Benediktsson frá Þór Akureyri en auk þeirra reimuðu þeir Jónas Hafþór Jónsson, Elvar Þór Ægisson og Þorleifur Viggó Skúlason á sig skóna á ný eftir nokkurt hlé en Viggó tók við þjálfun liðsins fyrir tímabilið. Skallagrímsliðið hefur líka gengið í gegnum breytingar og renndu því bæði lið nokkuð blint í sjóinn um andstæðinga sína.
 
Framan af virtust heimamenn vera einbeittari og ætla að taka frumkvæðið. Um miðjan fjórðunginn tóku gestirnir hins vegar forystuna og varnarleikur heimamanna var ekki nógu sterkur. Staðan eftir fyrsta fjórðung var 21-28 og gestirnir leiddu þægilega í hálfleik 34-44. Heimamenn hresstust heldur í síðari hálfleik og sóttu að gestunum en gekk ekki að loka gatinu endanlega. Staðan fyrir lokafjórðunginn var 54-58 og við tók spennandi lokafjórðungur. Hattarmenn minnkuðu muninn fljótlega í eitt stig og sóttu villu í næstu sókn en fengu ekki vítaskot. Eitthvað fór það í skapið á Viðari Erni og fékk hann tæknivillu, eitthvað sem honum hættir of oft til að gera. Gestirnir nýttu vítin vel og bættu í muninn. Hattarmenn sóttu þó á að nýju og komust yfir í fyrsta sinn síðan um miðjan fyrsta fjórðung. En þá settu Skallagrímsmenn í lás. Skyttur heimamanna, þeir Viðar og Terrell ýmist geiguðu á skotum eða þá að varnarmenn gestanna lokuðu alveg á þá. Skallgrímur landaði góðum útisigri 70-76.
 
Bestur hjá heimamönnum var Viðar Örn. Hann er einfaldlega potturinn og pannan í þessu liði. Lék hverja einustu mínútu og var með 22 stig og 11 fráköst. Þá setti hann niður 6 af 10 þriggja stiga skotum. Daniel Terrel stóð sig einnig vel en mætti bæta skotnýtinguna. Hann er samt greinilega með byssuleyfi því hann tók 13 þriggja stiga skot í leiknum, setti 5 þeirra niður og kláraði leikinn með alls 25 stig. Aðrir leikmenn stóðu sig þokkalega. Stóru mennirnir Björn og Kristinn gerðu eins og þeir gátu en það vantar fleiri hávaxna leikmenn í þetta Hattarlið. Björgvin Karl Gunnarsson átti fína spretti þótt hann væri ekki áberandi á stigatöflunni.
 
Hjá gestunum drógu erlendu leikmennirnir vagninn. Darrel Flake var með 20 stig og 11 fráköst en virkaði í slöppu formi og mun ábyggilega eiga erfiðar uppdráttar gegn öflugri varnarmiðherjum en hann mætti í gær. Nikola Kuga átti einnig góðan leik með 16 stig og 6 fráköst. Fjölhæfur leikmaður sem erfitt er að eiga við. Liprir bakverðir Skallagríms áttu líka sínar stundir, þá ekki síst Ragnar Ólafsson sem kom sterkur af bekknum. Ragnar lék með Hetti fyrir tveimur árum en lék ekkert í fyrra. Það er fínt að sjá hann kominn á ferðina á ný og hann er ágæt viðbót við þennan Skallagrímshóp.
 
Óvenjulegt verður að teljast að dómarar leiksins eru feðgar, þeir Kristinn Óskarsson og Ísak Ernir Kristinsson. Þeir stóðu sig með prýði og virtust eiga hinar bestu fjölskyldustundir þarna úti á vellinum.
Umfjöllun: Stefán Bogi
Ljósmynd/ Úr safni: Borgnesingar náðu í tvö stig á Egilsstöðum