Laugdælir og Skallagrímur mættust í 1. deild karla í gærkvöldi þar sem nýliðar Laugdæla lönduðu sínum fyrstu stigum með 88-81 sigri á gestum sínum. Pétur Már Sigurðsson spilandi þjálfari Laugdæla gerði sínum gömlu félögum úr Borgarnesi skráveifu er hann smellti niður 24 stigum.
Skallarnir byrjuðu leikinn vel og nýttu færi sín og langskot á meðan Laugdælirnir virtust taugaóstyrkir. Í öðrum leikhluta dró saman með liðunum og virtist sem Kveldúlfssonum svelgdist á í sóknum sínum svo vatnsbúarnir komust inn í leikinn og fóru í hálfleik aðeins tveimur stigum undir.
 
Í þriðja leikhluta bættu heimamenn vörnina og komust í fimmtán stiga forystu sem hélt fram í fjórða leikhluta. Þegar sjö mínútur voru eftir komu Skallarnir úr kafinu og söxuðu niður forskotið þannig að jafnt var orðið þegar tvær mínútur voru eftir 80-80. Þá fóru í hönd æsilegar lokamínútur þar sem reynsla Péturs Más þjálfara Laugdæla gerði gæfumuninn um leið og vörnin small í lás. Örvæntingarfullar tilraunir Skallanna til að ná boltanum sendi Sigga Orra og Pétur Má á línuna hvar þeir sýndu öryggi sitt og skólapiltarnir lönduðu sanngjörnum fyrsta sigri 88-81.
 
Laugdælir: Pétur Már Sigurðsson 24/4 fráköst, Sigurður Orri Hafþórsson 24, Anton Kári Kárason 14/5 fráköst, Bjarni Bjarnason 10/7 fráköst, Jón H. Baldvinsson 9/7 fráköst/5 stolnir, Arnór Yngvi Hermundarson 5, Helgi Hrafn Ólafsson 1, Haukur Már Ólafsson 1, Ragnar I. Guðmundsson 0, Oddur Benediktsson 0, Baldur Örn Samúelsson 0.
 
Skallagrimur: Darrell Flake 30/16 fráköst, Nikola Kuga 14/11 fráköst, Hafþór Ingi Gunnarsson 13/6 fráköst, Halldór Gunnar Jónsson 9, Ragnar Ólafsson 7, Birgir Þór Sverrisson 5, Guðjón Jónsson 2, Óðinn Guðmundsson 1, Elfar Már Ólafsson 0, Andrés Kristjánsson 0, Sigurður Snorri Gunnarsson 0, Atli Aðalsteinsson 0.
 
Dómarar leiksins stóðu sig vel en á flautunum héldu þeir Davíð Kr. Hreiðarsson og Hákon Hjartarson.
 
Umfjöllun: Kári Jónsson