Þrenna takk fyrir! Venju samkvæmt. Pavel Ermolinskij sannar kvöld eftir kvöld þyngd sína í gulli enda bauð kappinn upp á 22 stig, 14 fráköst, 11 stoðsendingar og 3 stolna bolta í kvöld. Pavel var að vonum sáttur með stigin tvö en sagði að ,,egóið“ væri að stríða KR þar sem þeir væru því miður að hleypa liðum aftur inn í leikina eftir að hafa unnið upp gott forskot.
,,Þetta er orðin gömul saga hjá okkur og gerist trekk í trekk að við náum upp forskoti og svo klúðrum við því niður, þetta er bara eitthvað ,,egó“ í okkur. Við höldum greinilega að við séum eitthvað betri en aðrir og getum bara ,,krúsað“ í gegnum leikina og gerum það reyndar þangað til hin liðin byrja að taka á. Þá er þetta ekki jafn auðvelt. Þetta er ekki það eina sem er að hrjá okkur því okkur vantar að halda einbeitingu í heilar 40 mínútur,“ sagði Pavel og viðurkenndi að KR hefði sýnt mátt sinn í framlengingunni.
 
,,Við þurfum að gera þetta allan leikinn eins og við gerðum í framlengingunni. Það var ágætt tempó í okkur í kvöld en það vantaði smá stöðugleika,“ sagði Pavel sem er ánægður með komu Marcus Walker í DHL-Höllina.
 
,,Hann er að gera það sem við vildum af honum, er að spila frábæra vörn en þarf að komast meira inn í sóknarleikinn þó það sé nóg af leikmönnum sem geti skorað hjá okkur. Þetta er hörku körfuboltamaður og gerði t.d. Justin Shouse mjög erfitt fyrir hérna í kvöld.“
 
Næsti leikur KR er á sunnudaginn þegar liðið mætir í Hveragerði og spilar gegn Hamri kl. 19:15.