,,Nú líður manni eins og litlu barni sem var að fá flottustu jólagjöfina. Seljaskóli með parketi hefur verið mikið baráttumál í ansi mörg ár, nú er það komið. Þetta er algjör draumur og fallegur er körfuboltavöllurinn,” sagði kátur Gunnar Sverrisson þjálfari ÍR í Iceland Express deild karla eftir að hafa stýrt fyrstu æfingu ÍR á nýju parketi í Hellinum (Seljaskóla).
,,Þú keyrir ekki á lakkinu sagði bifreiðaskoðunarmaður ríkisins við mig fyrir rúmum 20 árum þegar hann tjakkaði upp gullfalegu nýsprautuðu gömlu bjölluna mína og boddíið fór bara upp en hjólin urðu eftir á götunni. Það er sama með parketið. Við þurfum að spila góðan körfubolta, förum ekki langt á því að vera komnir með parket, það er ekki nóg. En að öllu gamni slepptu og eftir langa bið þá er búið að opna fyrir æfingar. Þetta hefur riðlað starfinu mikið hjá ÍR því þetta hefur aðeins tekið lengri tíma en áætlað var. Við höfum verið að æfa á nokrum stöðum og meira segja í Valsheimilinu þó að við séum ekki KFUM-lið eins og Haukar í fótbolta,” sagði Gunnar sem var svo dottinn í Óskarsverðlaunafíling.
 
,,Ég vil nota tækifærið og þakka Valsmönnum fyrir aðstoðina og æfingatímana. Svo ég haldi áfram með óskarsverðlauna-stemmninguna þá vil ég þakka Reykjavíkurborg, öllum þeim starfsmönnum sem komu að verkinu fyrir frábært samstarf. Sérstaklega þeim Jóni smið, Bryngeiri smið og Friðgeiri línuteiknara. Strákarnir mínir hafa sýnt þessari bið frá því sumar mikla þolinmæði en voru eitt stórt bros eftir æfinguna í gær."
 
Ljósmyndir/ Frá Seljaskóla í gærkvöldi.