,,Mér fannst við frábærir í fyrri hálfleik, við lendum snemma undir en komum til baka og mér fannst við betri enda leiddum við með fjórum stigum í hálfleik en svo bara springum við í seinni hálfleik,“ sagði Örvar Kristjánsson þjálfari Fjölnis um ósigur sinna manna gegn KR í Iceland Express deild karla í kvöld.
,,KR-ingarnir hafa meiri reynslu í svona leikjum en það er engin afsökun því við eigum alveg að geta spilað mun líkamlegri bolta en við fórum út úr okkar aðgerðum í seinni hálfleik og KR setti niður stór skot sem bjó til forskot sem við náðum ekki að brúa,“ sagði Örvar en hvernig líður honum með upphaf sitt hjá Fjölni, einn sigur og einn tapleikur kominn í sarpinn.
 
,,Mér líður ekkert illa, ég hef mikla trú á liðinu og gríðarlega mikla trú á þessum leikmönnum og ég var ánægður með margt í dag enda margir að leggja í púkkið. Það er ekkert að ástæðulausu að KR er spáð efsta sætinu en ég var sannfærður fyrir þennan leik að við myndum vinna svo ég hefði viljað sjá okkur koma sterkari í seinni hálfleikinn en við lærum af þessu og komum bara grimmir til baka.“
 
Næsti leikur Fjölnis í Iceland Express deildinni er gegn Haukum í Dalhúsum 28. október.