Í gærkvöldi unnu Þórsarar þægilegan 19 stiga sigur, 76-57 þegar þeir mættu Laugdælum í fyrsta heimaleik sínum á þessu tímabili. Leikurinn var jafn fyrstu mínútur leiksins en þegar líða tók á fyrri hálfleikinn náðu heimamenn góðri forystu sem þeir létu aldrei af hendi. Sama hvað gestirnir reyndu, náðu gestirnir aldrei að ógna heimamönnum að neinu viti og því innbyrgðu heimamenn öruggan sigur að lokum, 76-57 og hafa Þórsarar því unnið tvo fyrstu leiki sína á tímabilinu.
Leikurinn byrjaði afar rólega, lágt stigaskor og nokkuð um mistök hjá báðum liðum. Undir lok fyrsta leikhluta náðu Þórsarar þó góðum spretti og náðu níu stiga forystu áður en fjórðungnum lauk og leiddu því 19-10 eftir fyrsta fjórðung. Heimamenn byrjuðu annan fjórðung að krafti og skoruðu fyrstu fjögur stig fjórðungsins og náðu þar af leiðandi 13 stiga forystu, 23-10. Pétur Már Sigurðsson þjálfari Laugdæla leist ekkert á blikuna og var snöggur að taka leikhlé. Leikhléið breytti þó litlu þar sem gestirnir fundu fá svör við sterkri vörn heimamanna. Þórsarar náðu mest 17 stiga forystu 27-10 og héldu góðu forskoti allt til loka fyrri hálfleiks þar sem þeir leiddu leikinn með 15 stigum, 35-20.
 
Síðari hálfleikurinn mun seint fara í sögubækurnar fyrir spennu. Þórsarar byrjuðu síðari hálfleikinn nokkuð vel og náðu mest 22 stiga forskoti, 47-25 og virtust hreinlega ætla að valta yfir gestina. Pétur Már tók þá leikhlé sem virtist fara ágætlega í gestina. Pétur Már náði fínni syrpu fyrir gestina og setti m.a. 6 stig á skömmum tíma. Þrátt fyrir að heimamenn gerðu nokkur mistök sóknarlega náðu gestirnir aldrei að nýta sér þau í vil þar sem þeir áttu í erfiðleikum með vörn Þórs. Þórsarar leiddu því leikinn nokkuð þægilega fyrir loka fjórðunginn, 61-41.
 
Þórsarar virtust nokkuð værukærir í upphafi fjórða leikhlutans því gestirnir skoruðu fyrstu fimm stig fjórðungsins. Sigurður Grétar aðstoðarþjálfari heimamanna var að vonum ósáttur með byrjunina og tók fljótt leikhlé. Eftir leikhlé Sigurðar náði leikurinn í raun aldrei neinum hæðum. Sem fyrr áttu gestirnir fá svör við vörn Þórsara sem gátu leyft sér ýmislegt sóknarlega. Á síðustu mínútum leiksins var ljóst að hugur leikmanna var kominn inn í búningsklefa en Þórsarar náðu þó að sigla sigrinum örugglega í höfn og fögnuðu því góðum 76-57 sigri.
 
Sigur heimamanna var í raun aldrei í hættu og gestirnir ógnuðu Þórsurum aldrei nema á upphafsmínútum leiksins. Það má segja að vörn Þórsara hafi lagt grunninn af sigrinum í kvöld því að gestirnir áttu í miklum erfiðleikum með að finna glufur á vörn heimamanna. Það má með sanni segja að Þórsarar hafi í raun klárað leikinn með góðri spilamennsku í fyrri hálfleik sem var nóg til að klára gestina. Það má þó hrósa gestunum fyrir mikla baráttu í kvöld því þeir gáfust aldrei upp þrátt fyrir bratta brekku.
 
Bjarni Bjarnason átti fínan leik fyrir gestina þar sem hann setti niður 22 stig og sýndi oft á tíðum fínar rispur. Einnig átti Pétur Már ágætis leik en eins og oft áður var aðal ógn frá honum fyrir utan þriggja stiga línuna.
 
Hjá heimamönnum var Konrad Tota atkvæðamestur með 22 stig en næstur honum kom Ólaftur Torfason með 14 stig og Wesley Hsu með 11. Það sem skildi þó liðin mest að í kvöld var baráttan inn í teig. Gestirnir réðu einfaldlega ekki við heimamenn inn í teignum og má þar nefna að Ólafur Torfason hirti 19 fráköst og Óðinn Ásgeirsson 11.
 
Það má einnig geta þess að heimamenn skoruðu 50 stig innan teigs á móti 18 hjá gestunum. En öruggur og sanngjarn 76-57 sigur Þórsara staðreynd.
 
Myndasafn úr leiknum eftir Rúnar Ingimarsson má sjá hér.
 
Viðtöl við Ólaf Torfason, Sigurður Sigurðsson aðstoðarþjálfara Þórs og Bjarna Árnason má sjá á heimasíðu Þórs.
 
Umfjöllun: Sölmundur Pálsson
 
Mynd: – Ólafur Torfason var eins og frákastamaskína í leiknum – Rúnar Ingimarsson