Á þriðjudag birtum við stutta frétt hér á síðunni um heimildarmyndina 30-30: Once brothers þar sem fyrrum NBA leikmaðurinn Vlade Divac gerir upp málin sín tengd gamla júgóslavneska landsliðinu og félaga sínum heitnum Drazen Petrovic. Ísland kemur lítið eitt fyrir í myndinni þar sem fræg er orðin myndin af fánanum sem strengdur var upp í Ljónagryfjunni: Stop the war in Croatia!
Árið 1991 tóku Njarðvíkingar þátt í Evrópukeppninni og sátu hjá í fyrstu umferð. Í annarri umferð mættust Njarðvík og Cibona Zagreb í tveimur leikjum hérlendis þar sem ekki var hægt að spila í Króatíu sökum borgarstyrjaldarinnar sem þá var skollin á í gömlu Júgóslavíu. Þó enginn af frægustu leikmönnum júgóslavneska landsliðsins hafi verið í liði Cibona þá voru Króatarnir afar sterkir eins og lokatölur leikjanna tveggja sýndu.
 
Vel að merkja í myndinni Once brothers segir Vlade Divac þegar myndin úr Ljónagryfjunni birtist: With the war in Jugoslavia basketball was no longer important!
 
Úr bókinni Leikni framar líkamsburðum:
Fulltrúi Cibona Zagreb sem mætti Njarðvíkingum afhenti Jóni Sigurðssyni, starfandi utanríkisráðherra, bréf til Alþingis Íslendinga, þar sem farið var fram á hjálp í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar (Króatíu).
 
Í Leikni framar líkamsburðum segir ennfrekar:
Rétt er að geta þess að ríkisstjórn Íslands sendi stjórnum Króatíu og Slóveníu skeyti þann 19. desember þar sem því var lýst yfir að ákveðið hefði verið að viðurkenna þau sem sjálfstæð og fullvalda ríki… Ísland varð með þessu fyrsta vestræna ríkið sem viðurkenndi sjálfstæði ríkjanna tveggja en áður höfðu Litháen og Úkraína riðið á vaðið.
 
Það var því á viðsjárverðum tímum sem króatíska stórliðið Cibona Zagreb kom til Íslands og má deila um hvor sigur liðsins hafi verið stærri hérlendis, á Njarðvíkingum eða sá pólitíski. Fyrri leikur liðanna fór 111-76 Cibona í vil og sá síðari 97-74. Fyrir leikina gegn Cibona fengu Njarðvíkingar m.a.s. að bæta við sig lánsmanni úr Skallagrím en sá heitir Maxím Krúpatsjev og skipti hans innkoma í Njarðvíkurliðið greinilega litlum toga.
 
Þetta sama Cibona lið og lék um haustið 1991 í Njarðvík hélt svo áfram og komst í undanúrslit Evrópukeppninnar þar sem liðið lá gegn Pinturas Bruguer Club sem í dag heitir Joventut Pinturas Bruguer Badalona.
 
 
Ljósmynd/ Bjarni Eiríksson: Frá viðureign Njarðvíkur og Cibona Zagreb í Ljónagryfjunni. Lengst til vinstri á myndinni má sjá glitta í Friðrik Pétur Ragnarsson en þjálfari Njarðvíkinga á þessum tíma var nafni hans Friðrik Ingi Rúnarsson.