,,Þetta er bara flott byrjun, ég hafði svona pínu áhyggjur af þessu fyrir mót því við náðum ekki nema einni æfingu allir saman áður en þetta byrjaði þannig að þetta er fram úr björtustu vonum myndi ég segja,“ sagði Óðinn Ásgeirsson leikmaður Þórs eftir sigurinn á Breiðablik í kvöld. Óðinn og Konrad Tota fóru mikinn í liði Þórsara, aðspurður hvort Þórsarar væru að stóla of mikið á framlag Tota sagði Óðinn:
,,Við vorum ekkert að stóla of mikið á Tota í t.d. þessum leik, það voru margir að stíga upp í kvöld eins og t.d. Wesley. Tota átti klárlega fyrsta leikinn gegn Val og auðvitað reynum við að koma boltanum til hans enda klárlega besti leikmaður liðsins. Það er samt fullt af öðrum leikmönnum í hópnum sem hafa sjálfstraust til þess að skora,“ sagði Óðinn sem átti allt eins von á því að áframhald yrði á málum eins og fyrstu þrjár umferðirnar hafa þróast.
 
,,Ég get alveg trúað því að deildin verði svona jöfn og að við munum sjá óvænt úrslit út leiktíðina, af hverju ekki? Það er bara gaman þegar allir geta unnið alla,“ sagði Óðinn sem síðustu ár hefur ekki séð nafn sitt oft á prenti án þess að orðið meiðsli fylgi með, hver er staðan á skrokknum í dag?
 
,,Ég er bara fínn, búinn með meiðslin, þessi pakki er búinn og nú er ferillinn að byrja,“ sagði Óðinn kátur í leikslok sem hefur síðustu ár verið einn af prímusmótorum Akureyringa.
 
Næsti leikur Þórs er 29. október gegn FSu í Iðu á Selfossi.