NBA deildakeppnin hófst í nótt með þremur leikjum. Í Portland tóku heimamenn í Trail Blazers á móti liði Phoenix Suns, og fóru leikar þannig að Blazers unnu öruggan 106-92 sigur á Suns, Brandon Roy skoraði 24 stig fyrir ungt lið Blazers en ellismellurinn Steve "virðist bara verða betri með aldrinum" Nash gerði 26 fyrir Phoenix. 
Í Staples Center í Los Angeles tóku meistarar Lakers á móti Rakettunum frá Houston. Fóru leikar svo að Lakers unnu tæpan 112-110 sigur þar sem hið frábæra tvíeyki Pau Gasol og Kobe Bryant voru með 58 stig samtals, en auk þess tók Gasol 11 fráköst. Kevin Martin skoraði 26 fyrir Rockets. Þá vakti athygli að hinn krónískt meiddi miðherji Rockets, Yao Ming lék í kvöld eftir erfið meiðsli. Yao skoraði 9 stig á 23 mínútum og reif niður 11 fráköst.
 
Leikur kvöldsins var svo án nokkurs vafa í TD Garden í Boston þar sem silfurlið seinasta tímabils, Boston Celtics tóku á móti stórstjörnuprýddu liði sólstrandardrengjanna í Miami Heat en margir höfðu beðið eftir að sjá þá Dwyane Wade, Chris Bosh og LeBron James spila saman í alvöru mótsleik. Þó verður að segjast að lið Miami olli töluverðum vonbrigðum og voru það Bostonmenn sem fóru með sigur af hólmi, 88-80, eftir að hafa náð mest 19 stiga forystu. Ellismellurinn Ray Allen skoraði 20 stig fyrir Celtics og James var atkvæðamikill hjá Heat með 31 stig. Sjá myndband frá leiknum.
 
Elías Karl