Í gærkvöldi mættust Horsens IC og Aabyhoj í dönsku úrvalsdeildinni í körfuknattleik en hjá Horsens leikur Sigurður Þór Einarsson og Magnús Þór Gunnarsson leikur með Aabyhoj. Skemmst er frá því að segja að Horsens, sem léku á heimavelli, höfðu sigur í leiknum 82-78. 
Magnús Þór var stigahæsti maður vallarins með 22 stig en hann setti niður 6 af 10 þriggja stiga skotum sínum í leiknum og lék í 33 mínútur þrátt fyrir að vera ekki í byrjunarliði Aabyhoj. Þá tók Magnús einnig 2 fráköst í leiknum. Sigurður Þór fyrirliði Horsens kom lítið við sögu í leiknum, lék í rétt rúmar 5 mínútur og náði ekki að skora.
 
Eftir leikinn í gær er Horsens í 2. sæti deildarinnar með 8 stig en Aabyhoj í 6. sæti með 4 stig. Eina taplausa liðið í deildinni eftir 5 umferðir er Svendborg Rabbits.