Þrír leikir fóru fram í sænsku úrvalsdeildinni í kvöld þar sem Logi Gunnarsson fór enn eina ferðina fyrir Solna Vikings er hann dritaði niður 38 stigum. Solna lagði 08 Stockholm HR á heimavelli þar sem lokatölur voru 96-65 Solna í vil. 
Eins og fyrr greinir fór Logi mikinn í leiknum en þetta er þriðji leikurinn í röð sem Logi leiðir stigaskor Solnamanna. Logi gerði 38 stig, tók 6 fráköst og gaf 2 stoðsendingar.
 
Hlynur Bæringsson og Jakob Örn Sigurðarsson hrósuðu einnig sigri í kvöld þegar Sundsvall Dragons lögðu Jamtland Basket 70-75 á útivelli. Jakob Örn gerði 9 stig og tók 10 fráköst í liði Sundsvall sem lék án Hlyns Bæringssonar sem glímir við smávægileg meiðsli og dulitla flensu.