Íslendingaslagur Solna Vikings og Sundsvall Dragons í sænsku úrvalsdeildinni var að ljúka rétt í þessu en leikurinn var hnífjafn frá upphafi til enda þar sem íslensku leikmennirnir létu vel að sér kveða. Heimamenn í Solna höfðu betur að þessu sinni og það með flautukörfu frá Olivier Ilunga og lokatölur 98-96 Solna í vil. 
Endaspretturinn var æsispennandi. Jakob Örn kom Sundsvall í 92-93 með stökkskoti í teignum þegar 39 sekúndur voru til leiksloka. Logi Gunnarsson svaraði í næstu sókn fyrir Solna með þrist og staðan 95-93 fyrir Solna. Þegar svo 8,4 sekúndur voru til leiksloka skoraði Hlynur Bæringsson í teignum og jafnaði 96-96. Í næstu sókn braust Ilunga inn í teig Sundsvall og fór þaðan inn að hliðarlínu hægra megin þar sem hann vippaði sér upp í erfitt skot sem skoppaði á hringnum og hafnaði ofan í og sigur Solna í höfn.
 
Eins og fyrr greinir fóru íslensku leikmennirnir á kostum í kvöld. Logi Gunnarsson var stigahæstur í liði Solna með 22 stig, 2 fráköst og 2 stoðsendingar. Hjá Sundsvall var Hlynur Bæringsson með 22 stig og 18 fráköst takk fyrir og Jakob Örn Sigurðarson gerði 17 stig og tók 4 fráköst.
 
Þá máttu Helgi Magnússon og félagar í Uppsala Basket þola ósigur á fyrsta leik tímabilsins þegar liðið lá naumlega gegn Jamtland á útivelli. Lokatölur voru nánast eins og hálfleikstölur en Jamtland vann leikinn 58-55 þar sem Helgi gerði 8 stig og tók 4 fráköst. Þegar fjórar sekúndur voru til leiksloka náði Helgi varnarfrákasti eftir víti hjá Jamtland, Helgi reyndi þá þriggja stiga skot um leið og flautan gall en það geigaði og sigur Jamtland því í höfn.
Ljósmynd/ Úr safni: Logi átti ljómandi dag í sínum fyrsta leik hjá Solna.