Þrír leikir eru á dagskránni hér heima í kvöld í Iceland Express deild karla en þá lýkur fjórðu umferð sem hófst í gær þar sem KR, Grindavík og Hamar nældu sér í tvö mikilvæg stig. Allir leikir kvöldsins hefjast venju samkvæmt kl. 19:15. 
Leikir kvöldsins í IEX karla:
ÍR-Tindastóll
Snæfell-KFÍ
Stjarnan-Njarðvík
 
Í Seljaskóla mætast einu stigalausu lið deildarinnar þegar Stólarnir koma í heimsókn svo það er ljóst að eftir fjórðu umferðina verður aðeins eitt lið án stiga í deildinni. Stjarnan og Njarðvík verða með prufukeyrslu á sinni glímu í kvöld þar sem liðin mætast svo bráðlega aftur og þá í 32 liða úrslitum Poweradebikarsins. Meistarar Snæfells fá svo nýliða KFÍ í heimsókn sem í síðustu umferð lögðu ÍR eftir framlengdan spennuleik.