Framlengja varð viðureign KR og Stjörnunnar í fyrstu umferð Iceland Express deild karla í kvöld. Staðan að loknum venjulegum leiktíma var 86-86. Í framlengingunni tóku KR-ingar öll völd og settu upp 5 mínútna langa sýningu sem lyktaði með 22 stigum gegn 4 frá Stjörnunni. Brynjar Þór Björnsson var stigahæstur heimamanna í kvöld með 23 stig og 6 fráköst en Pavel Ermolinskij var við sama gamla heygarðshornið og splæsti í þrennu, 22 stig, 14 fráköst og 11 stoðsendingar ásamt því að stela þremur boltum.
 
Gestirnir úr Garðabæ byrjuðu betur og komust í 4-0 en heimamenn voru ekki lengi að ná undirtökunum og komust í 16-11 með þriggja stiga körfu frá Marcus Walker sem kom sprækur af bekknum. Strax í fyrstu varnarstöðu komst Marcus inn í tvær Stjörnusendingar en náði ekki að stela boltanum, sprækur og áræðinn varnarmaður hér á ferðinni.
 
Brynjar Þór Björnsson var að finna sig ágætlega í upphafi leiks og hélt KR við efnið en Fannar Helgason minnkaði muninn í 33-28 með stökkskoti í teignum um leið og flautan gall. Mikið skorað í byrjun leiks þar sem minna fór fyrir varnarleiknum.
 
Í upphafi annars leikhluta náðu KR-ingar 10 stiga forskoti, 43-33. Ólafur Már Ægisson fór að láta til sín taka í KR liðinu og á sama tíma kom Marvin Valdimarsson inn á í nokkrar sekúndur til að næla sér í sína fjórðu villu í Stjörnuliðinu og því fátt um fína drætti á þeim bænum í fyrri hálfleik.
 
Hreggviður Magnússon kom með stóran þrist fyrir KR þegar um mínúta var til hálfleiks og breytti stöðunni í 56-42 með þriggja stiga körfu. Ekkert var meira skorað það sem eftir lifði af fyrri hálfleik og því stóðu leikar 56-42 í leikhléi.
 
Brynjar Þór Björnsson var stigahæstur KR-inga með 11 stig í hálfleik en hjá Stjörnunni var Justin Shouse einnig með 11 stig.
 
Í upphafi þriðja leikhluta náðu KR-ingar 20 stiga forskoti! Stjörnuvörnin gleymdi að mæta í síðari hálfleikinn en henni óx þó fiskur um hrygg með hverri mínútunni í leikhlutanum. Fannar Helgason lokaði þriðja leikhluta rétt eins og þeim fyrsta en nú var það með þriggja stiga skoti og Stjarnan búin að minnka muninn í 13 stig, 75-62 og þannig stóðu leikar fyrir fjórða leikhluta.
 
Eins og í úrslitaleik Lengjubikarsins gegn Snæfell misfórst KR að halda forystunni eða bæta ofan á hana. Stjörnumenn fengu aukið sjálfstraust með hverri sókninni og að lokum tókst Stjörnunni að jafna og komast svo yfir strax í næstu sókn 84-86 eftir að Pavel Ermolinskij fékk dæmda á sig tæknivillu fyrir mótmæli. Í garð gengu magnaðar lokasekúndur og þegar 9 sekúndur voru til leiksloka var dæmd villa á Jovan Zdravevski fyrir brot á Brynjari Þór. Jovan mótmælti og vildi ruðning en Brynjar hélt á línuna og hitti aðeins úr fyrra skotinu og staðan 86-86. Stjörnumenn brunuðu upp völlinn en buðu upp á ótrúlega dapra sókn sem endaði með lélegu skoti sem kom hvergi nærri hringnum og því þurfti að framlengja.
 
Framlengingin fór rólega af stað og Stjörnumenn virtust ekki taka eftir því að KR-ingar væru að undirbúa flugeldasýningu. Skyndilega var staðan orðin 96-86 og komið í óefni, sama hvað Garðbæingar reyndu þá voru KR-ingar komnir í bílstjórasætið. Svo fór að landsliðsmennirnir ungu frá sigurliði Íslands á Norðurlandamótinu í maí, þeir Martin Hermannsson og Matthías Siguarðarson, fengu að koma inn á leikvöllinn og Martin náði að gera sín fyrstu úrvalsdeildarstig er hann gerði lokakörfu leiksins úr þriggja stiga skoti og lokastaða leiksins 108-90.
 
Gríðarlegir yfirburðir hjá KR í framlengingunni þar sem Vesturbæingar fengu gott framlag frá vel flestum sínum leikmönnum. Pavel og Brynjar léku vel og Ólafur Már var með sterkar rispur og þá lék Marcus Walker mjög sterka vörn á Justin Shouse. Hjá Garðbæingum var Justin atkvæðamestur en þeir Fannar Freyr og Kjartan Atli áttu sína kafla í leiknum sem og Birgir Björn Pétursson sem jafnan tekur vel á því á vellinum.
 
Stigaskor liðanna
 
KR: Brynjar Þór Björnsson 23/6 fráköst, Pavel Ermolinskij 22/14 fráköst/11 stoðsendingar, Ólafur Már Ægisson 13/4 fráköst, Fannar Ólafsson 10/5 fráköst, Hreggviður Magnússon 9/5 fráköst, Finnur Atli Magnússon 9/7 fráköst, Jón Orri Kristjánsson 8, Marcus Walker 7/4 fráköst, Skarphéðinn Freyr Ingason 4/4 fráköst, Martin Hermannsson 3, Matthías Orri Sigurðarson 0, Agust Angantynsson 0.
 
Stjarnan: Justin Shouse 21/7 stoðsendingar, Fannar Freyr Helgason 17/9 fráköst, Kjartan Atli Kjartansson 17, Marvin Valdimarsson 11/4 fráköst, Jovan Zdravevski 10/4 fráköst/9 stoðsendingar/5 stolnir, Birgir Björn Pétursson 7/10 fráköst, Guðjón Lárusson 4, Birkir Guðlaugsson 2, Ólafur Aron Ingvason 1, Ottó Þórsson 0, Dagur Kár Jonsson 0, Daníel G. Guðmundsson 0.
 
Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Jón Þór Eyþórsson
 
 
Ljósmynd/ nonni@karfan.isÓlafur Már Ægisson leikmaður KR gerir hér 2 af 13 stigum sínum í leiknum.