Ekki eru öll met yndisauki eigenda sinna, síður en svo. Tvö lið í Iceland Express deild karla hafa nú komist á blað í ljótu metabókinni þegar fjórum umferðum er lokið en það eru Tindastóll og Keflavík.
Tindastóll afrekaði það að verða fyrsta liðið til að mæta báðum nýliðum deildarinnar í fyrstu tveimur umferðunum og tapa (gegn KFÍ og Haukum). Þetta var í fyrsta sinn sem þetta gerist síðan tvö lið fóru að koma upp og falla niður um deild. Eitthvað um áratugur er síðan tvö lið fóru að fara upp og niður úr úrvalsdeild.
 
Þá voru Keflvíkingar að kvitta undir verstu byrjun félagsins í úrvalsdeild með einn sigur og þrjá tapleiki eftir fjórar umferðir. Á venjulegri byrjun ef svo má að orði komast hafa Keflvíkingar jafnan verið með 2 sigra eftir 4 umferðir og oftast náð þeim árangri strax í þriðju umferð. Nú er þeirra versta byrjun í úrvalsdeild orðin að veruleika og Gunnar Einarsson leikmaður liðsins er ekki par sáttur þessa stundina.
 
,,Ég man ekki eftir annarri eins byrjun og þó við séum með alíslenskan hóp í þessum fjórum leikjum á það ekki að koma að sök, þetta eru allt strákar sem kunna körfubolta. Hlutirnir eru bara engan veginn að ganga upp eins og við viljum, það sér hver heilvita maður og þetta er eitthvað sem ég á erfitt með að venjast,“ sagði Gunnar sem í dag er á meðal reynslumestu leikmanna deildarinnar og hefur verið síðustu ár.
 
,,Valentino Maxwell er enn meiddur og ég veit ekki hvenær hann verður klár, það kemur bara í ljós, þetta tekur örugglega einhvern tíma og ég hreinlega veit ekki hvort það verði tekinn annar maður inn,“ sagði Gunnar sem bíður spenntur eftir föstudagsleiknum gegn KR.
 
,,Ég er löngu búinn að fá nóg af því að tapa, þetta er það agalegasta sem maður gerir í íþróttum, bara andvaka og pirraður eftir svona leiki og bíð því bara spenntur eftir föstudeginum að mæta KR,“ sagði Gunnar en KR-ingar deila því einmitt með Keflvíkingum að hafa legið í Hveragerði þetta tímabilið og spurning hvort stórliðabanar séu að fæðast í Blómabænum?
Ljósmynd/ Gunnar Einarsson og félagar í Keflavík settu met í gær þegar Keflavík tapaði þriðja leiknum sínum af fjórum, versta byrjun Keflvíkinga í úrvalsdeild.