,,Stóru leikmennirnir okkar hafa töluvert stolt og það var hrist vel upp í þeim í KR leiknum svo Teitur þjálfari sagði fyrir þennan leik að við ætluðum að vera liðið sem myndi vera ákveðnara í kvöld,“ sagði Justin Shouse leikstjórnandi Stjörnunnar sem gerði 16 stig og gaf 7 stoðsendingar í Stjörnusigrinum gegn Fjölni í kvöld.
,,Við ætluðum líka að notfæra okkur allt ,,mis-match“ sem kæmi upp en þó þetta Fjölnislið sé frekar lágvaxið þá spila þeir svo sannarlega af hörku og maður þarf að vera klár í slaginn allan tímann,“ sagði Justin og var sigrinum feginn.
 
,,Þetta er byrjun tímabilsins og maður er ekki alveg með á hreinu hvernig öll liðin í deildinni líta út svo það er mikilvægt að byrja vel,“ sagði Justin sem mætir með Stjörnunni í næstu umferð í Toyota-höllina gegn Keflavík þar sem Garðbæingar hafa nú sjaldan riðið feitum hesti heim á leið.
 
,,Við tökum þetta einn leik í einu og vissulega höfum við átt erfiða leiki í Keflavík en þetta verður það sama og á móti KR, þeir munu taka á okkur af hörku og við verðum bara að vera klárir í að spila okkar leik. Spila sterka vörn eins og við gerðum í kvöld og vörnin okkar sást best í skotnýtingu Fjölnis.“
Ljósmynd/ Úr safni: Shouse setti 16 stig í kvöld