Það var hraður og skemmtilegur leikur sem var boðið upp á í kvöld í Grindavík þegar heimamenn mættu ÍR og virkaði frekar lítið um varnir í fyrri hálfleik. Tilþrif fyrri hálfleiks voru samt sem áður varnartilþrif þegar Ólafur Ólafsson varði skot Kelly Biedler hjá ÍR með miklum tilþrifum. Staðan í hálfleik var 58-52 og leikurinn búin að vera skemmtilegur og hraður en lítið um varnir.
Eitthvað hefur Helgi Jónas Guðfinnsson, þjálfari Grindvíkinga, messað yfir sínum mönnum í hálfleik og örugglega rifjað upp fyrir þeim að hann ætlaði að búa til varnarlið því vörn Grindvíkinga var mun betri í 3ja leikhluta og sóknarleikurinn alveg frábær. Fremstur í flokki var Ryan Pettinella en hann skoraði 12 stig í leikhlutanum, varði 2 skot og stal boltanum einu sinni. Meðal annars tróð hann 2x með stuttu millibili og eftir seinni troðsluna þurfti að stoppa leikinn til að laga körfuna sem hafði eitthvað laskast í átökunum. Rætt var meðal annars um það í stúku Grindvíkinga hvort ekki væri hægt að ættleiða drenginn til Grindavíkur því barátta hans væri alveg til fyrirmyndar inni á vellinum.
 
Lið Grindavíkur virkaði vel æft og sáust oft og tíðum skemmtilegt spil milli leikmanna og lítur út fyrir að liðið sé að slípast betur saman með hverjum leik sem líður. Á sama tíma og allt gekk upp hjá Grindvíkingum þá gekk lítið sem ekkert upp hjá ÍR-ingum. Grindavík vann 3ja leikhluta 32-16 og munurinn því orðinn 22 stig, 90-68. ÍR-ingar reyndu hvað þeir gátu í upphafi fjórða leikhluta en úrslit leiksins voru ráðin og Grindvíkingar búnir að brjóta niður baráttu ÍR-inga. Seinustu mínútur leiksins voru formsatriði þar sem ungir og efnilegir leikmenn fengu að spreyta sig.
 
Hjá Grindavík voru fremstir meðal jafningja Ryan Pettinella með 28 stig (8 fráköst, 3 varin skot) og Andre Smith með 22 stig (11 stoðsendingar). Guðlaugur Eyjólfsson var með 13 stig (3/4 í þriggja), Páll Axel Vilbergsson og Björn Steinar Brynjólfsson (4/5 í þriggja) voru báðir með 12 stig og Þorleifur Ólafsson var með 10 stig.
 
Hjá ÍR átti Vilhjálmur Steinarsson ágætis leik með 23 stig en aðrir leikmenn hafa átt betri daga. Kelly Biedler skoraði 19 stig en virkaði frekar óheppinn eða óöruggur á tímabili í seinni hálfleik og Nemanja Sovic skoraði 17 stig en hefur oft verið kraftmeiri.
 
Umfjöllun: Bryndís Gunnlaugsdóttir
 
Ljósmynd/ Úr safni: Pettinella fer mikinn með Grindavík þessa stundina. Hér er hann í leik gegn Tindastól fyrr á tímabilinu.