Skallagrímur og Laugdælir mættust í 3 umferð 1. deildar kvenna í Fjósinu í Borgarnesi í gærkvöld. Skallagrímsstelpur voru búnar að tapa fyrstu tveimur leikjunum og það sást strax í upphitun fyrir leik að þær voru mættar dýrvitlausar til leiks. Þórdís Arnarsdóttir opnaði leikinn með tveimur vítaskotum en stelpurnar af vatninu svöruðu um hæl og komust í 3-2.
Gunnhildur Lind var nýlent frá Ameríkuhreppi og kom Skallastúlkum yfir með risa þristi og þá var ekki aftur snúið. Skallagrímur leiddi eftir fyrsta leikhluta 18-10 þar sem að Guðrún Ingadóttir fór mikinn í hraðupphlaupum heimamanna. Í öðrum leikhluta mætti Íris Gunnarsdóttir til leiks, strax í byrjun annars leikhluta smellti hún niður tveimur þriggja stiga körfum og allt ætlaði um koll að keyra í stúkunni. Heimastúlkur skoruðu 15 stig gegn 2 á fyrstu þrem mínútunum í fjórðungnum og voru síðan með þægilegt forskot í hálfleik 43-24.
 
Síðari hálfleikur byrjaði nokkuð brösuglega hjá Sköllunum þar sem að gestirnir skoruðu fyrstu 6 stig fjórðungsins. Þegar þarna var komið við sögu skelltu heimastúlkur í lás í vörnini með Írisi Gunnars fremsta í flokki. Íris dældi niður körfunum og stal hverjum boltanum á fætur öðrum og skoraði heil 16 stig í leikhlutanum. Staðan eftir 3. leikhluta 72-43.
 
Í fjórða leikhluta var þetta bara spurning hversu stór sigur heimamanna yrði og þær voru ekkert að gefa eftir í vörnini en leikar enduðu 91-59 Skallagrím í vil. Maður leiksins að þessu sinni var Íris Gunnarsdóttir en stúlkan smellti niður 45 stigum og var með ofboð af stolnum boltum. Frábær leikur hjá henni. Gaman var að sjá Gunnhildi Lind afur svellkalda, hún sýndi það og sannaði í þessum leik að hún er gríðarlega mikilvægur hlekkur í þessu stórskemmtilega liði. Þetta var fyrsti leikur Gunnhildar í vetur en hún er búin að vera í æfingabúðum í Bandaríkjunum. Guðrún Ingadóttir var einnig að spila fanta vel. Annars stóðu allar stúlkurnar sig gríðarlega vel í þessum leik og eru svo sannarlega á réttri leið.
 
Stigaskor Skallagríms:
 
Íris Gunn 45
Gunnhildur 16
Hugrún 11
Guðrún 10
Helena 3
Þórdís 2
Þorbjörg 2
Erna 2.
 
Fréttaritari Skallagríms í stúkunni:
Hallur Grímsson