Körfuknattleiksdeild ÍR hefur ráðið til sín nýjan leikmann og kemur sá frá Litháen. Hann heitir Karolis Marcinkevicius og leikur í stöðu leikstjórnanda/skotbakvarðar. Karolis, sem er 27 ára lék s.l. vetur í litháísku 2. deildinni og þótti standa sig vel. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá ÍR.
,,ÍR-ingar vona að hann styrki liðið og leikmannahópinn því nokkrir af lykilmönnum liðsins hafa átt við erfið meiðsli sem má rekja til s.l. tímabils og fyrir það. Það má nefna þá Sveinbjörn Claessen sem sleit krossband í byrjun sl tímabils, Eirík Önundarson sem braut hnéskel fyrir sl tímabil og Kristinn Jónasson sem hefur átt við langvarandi bakmeiðsli. Einnig má geta þess að Vilhjálmur Steinarsson sem átti líka við erfið bakmeisðli sl tímabil og lék sama og ekkert með ÍR það tímabil er allur að ná sér og hefur verið með liðinu á undirbúningstímabilinu. Einnig er það von deildarinnar að fyrrnefndir leikmenn snúi fljótt til leiks og sýni hversu megnugir þeir eru,” segir í fréttatilkynningunni sem ÍR sendi frá sér nú í kvöld.
 
Ljósmynd/ Gunnar og félagar í ÍR hafa fengið viðbót í Hellinn.