Það tók þrjár og hálfa umferð að sjá 40 stig hjá einum leikmanni í Iceland Express deild karla þetta tímabilið. Semaj Inge bakvörður Hauka afrekaði það í gærkvöldi gegn Grindavík þegar Haukar lágu 84-100 að Ásvöllum. 
Inge kom víðar við í tölfræðinni með 6 fráköst, 5 stoðsendingar og 4 stolna bolta. Næsti maður á lista er Keflvíkingurinn Hörður Axel Vilhjálmsson með 34 stig sem hann skoraði í gær í tapleik Keflavíkur gegn Hamri. Í þriðja sæti eru svo þeir Kelly Beidler leikmaður ÍR og Craig Schoen leikmaður KFÍ báðir með 32 stig.
 
Á topp 20 listanum yfir mesta skor í leik þessa þrjár og hálfa umferðina eru fjórir Íslendingar, þeirra efstur er Hörður Axel Vilhjálmsson með 34 stig, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 29 stig, Ellert Arnarson 27 stig og Ægir Þór Steinarsson 25 stig.
 
Ljósmynd/ Tomasz Kolodziejski: Inge fór mikinn í liði Hauka í gær og skoraði tæplega helming stiga liðsins.