Viðureign Uppsala Basket og Solna Vikings í sænsku úrvalsdeildinni í körfuknattleik var að ljúka þar sem Uppsala hafði betur í Íslendingaslagnum þar sem mættust Helgi Magnússon og Logi Gunnarsson. Sænska deildin telur fjóra íslenska leikmenn þennan veturinn og leikin er fjórföld deildarumferð í Svíþjóð svo búast má við reglulegum rimmum Íslendinganna í Svíaveldi. 
Lokatölur leiksins voru 90-69 Uppsala í vil þar sem Helgi gerði 2 stig og tók 6 fráköst í liði Uppsala. Logi Gunnarsson var stigahæstur hjá Solna annan leikinn í röð og nú með 21 stig en það dugði ekki til og bæði lið, Solna og Uppsala hafa nú unnið einn leik og tapað einum.

Ljósmynd/ Sætur sigur hjá Helga með Uppsala en hann lék einmitt með Solna á síðasta tímabili.