,,Okkur vantar einhvern til að skora stigin en vorum þannig lagað að fá nýjan leikstjórnanda sem hjálpar okkur rosalega mikið en Ingibjörg er ung og á sínu fyrsta ári í meistaraflokki. Hún er ótrúlega efnileg en óreynd en á eftir að ná þessu fljótt,“ sagði Helga Hallgrímsdóttir leikmaður Grindavíkur eftir 67-54 ósigur gegn Njarðvíkingum í Iceland Express deild kvenna í kvöld.
Grindvíkingar leysa stöðu leikstjórnanda með 16 ára gömlum leikmanni að nafni Ingibjörg Yrsa Ellertsdóttir sem er nýliði í deildinni og gríðarmikið efni. Ingibjörg gerði 11 stig í leiknum í kvöld og fór oft fyrir Grindvíkingum.
 
,,Clark á enn eftir að sýna sinn besta leik því miður en vonandi kemur það allt hjá henni. Okkur vantar leikmann sem getur klárað hlutina en það kemur vonandi,“ sagði Helga sem fer fyrir baráttuþreki Grindavíkurliðsins en í kvöld var hún með 8 stig og 10 fráköst en saman tóku hún og systir hennar Helga 27 fráköst í leiknum.
 
,,Það hrjáir okkur að hafa misst allar skytturnar í sumar, maður gat alltaf gefið út á þær og í 70% tilfella hittu þær en nú hefur losnað um mjög mörg skot sem við verðum að þora að taka,“ sagði Helga en hvernig leggst framhaldið í hana þegar Grindavík er við botn deildarinnar ásamt Snæfell og Fjölni?
 
,,Þetta hefur gengið betur og betur hjá okkur, við byrjum tímabilið seint og undirbúningstímabilið hjá okkur kláraðist seinna en hjá flestum öðrum liðum en vonandi er þetta bara upp á við hjá okkur.“