Á síðustu leiktíð varð Heiðrún Kristmundsdóttir Íslandsmeistari í Iceland Express deild kvenna með KR. Skömmu síðar hélt hún út með íslenska landsliðinu til að taka þátt í Norðurlandamóti yngri landsliða í Svíþjóð. Í Svíaveldi fékk Heiðrún svar við sínum málum en þá hafði hún haft augastað á Bandaríkjunum í nokkurn tíma. Nú er svo búið að Heiðrún er niðurkomin í sjálfu Jordan-State eða í Winston-Salem í Norður-Karólínu og vertíðin með Forsyth Country Day School er handan við hornið.
,,Þetta kom þannig til að mig langaði að fara út sem skiptinemi og hafði sambandi við Sigga Hjörleifs. Hann ásamt skiptinemasamtökunum IE-Experience unnu saman að því og síðan fékk ég allt í einu póst þegar við vorum úti á NM að ég væri komin með fjölskyldu úti í Winston-Salem, North Carolina. Ég er hjá fjögurra manna fjölskyldu og bý um 15 mínútur frá skólanum en ég fæ far með systur minni í skólann á hverjum degi. Ég er á lokaári í Forsyth Country Day School sem er einka miðskóli með um 1000 nemendur en liðið heitir Furies,“ sagði Heiðrún og kvað körfuboltann ganga vel hjá sér.
 
,,Ég er alveg ótrúlega spennt fyrir tímabilinu sem byrjar núna í nóvember því undirbúningstímabilið er búið að vera frekar langt og erfitt, en fyrsti deildarleikurinn er heimaleikur þann sextánda,“ og hafa einhverjar framfarir orðið síðan hún lenti í Jodan-vöggu körfuboltans?
 
,,Ég myndi segja að framfarirnar séu einhverjar því ég tek lyftingar sem fag í skólanum og við tókum vel á því á undirbúningstímabilinu, þannig að ég er allavega búin að styrkjast þokkalega og finn hvernig snerpan og stökkkrafturinn eru einnig búin að aukast,“ sagði Heiðrún en hvað er í framtíðarplönunum?
 
,,Stefnan er fastlega sett á að halda áfram og fara í háskóla eftir þetta eina ár og ég er því á fullu að koma mér á framfæri við skóla, taka stöðupróf og fleira sem þarf. Fósturmamma mín hérna kom mér svo fyrir tilviljun inn í prógram hjá AAU liði sem heitir Winston-Salem Stealers og ég spilaði með því í september, við kepptum á einu móti og unnum það sem var fyrsta Ameríska gullið mitt og vonandi ekki það síðasta!!“
 
AUU er skammstöfun á Amateur Athletic Union og í körfuboltanum er þar starfrækt sumardeild fyrir þá leikmenn sem eiga ekki kost á því að spila bolta fyrr en skólaárið hefst.
 
,,Alvöru æfingar byrja ekki fyrir en 1. nóvember. Þetta prógram er mjög gott til að koma sér meira á framfæri, og það hefur hjálpað mér mikið því eftir að hafa spilað með þessu liði hafa nokkrir skólar haft samband við mig og sýnt mér áhuga,“ sagði Heiðrún svo dvölin ytra gæti orðið nokkuð lengri en bara þetta eina ár í miðskólanum. Hvernig líst henni annars á KR liðin sín hér heima þetta tímabilið?
 
,,Mér líst mjög vel á bæði KR-liðin og ég fylgist vel með stelpunum mínum og þrátt fyrir breytingar frá síðasta ári þá veit ég að þær munu standa sig vel í vetur því þær eru með flottan og sterkan hóp. Ég neita líka að trúa öðru nema að Signý verði í búning í lok tímabilsins. Strákarnir eru á siglingu og ef Pavel heldur áfram að spila eins og hann er að spila þá hef ég ekki miklar áhyggjur af þeim því þeir eru með menn hverri stöðu.“
 
Ljósmynd/ Heiðrún í búningi Furies en á þessari mynd er hún nr. 40 en sagði Karfan.is að hún myndi leika nr. 21 í vetur – þá væntanlega til heiðurs Dominique Wilkins, eða hvað?