Fyrrum leikmaður og þjálfari Hamars, Pétur Ingvarsson, mætti til Hveragerðis í kvöld í þeim tilgangi að stýra sínu liði, Haukum, á móti heimamönnum í fyrstu umferð Iceland Express deildar karla.
Stór hluti leiksins einkenndist af jafnræði og spennu. Eftir 1. leikhluta var staðan 16-18 gestunum í vil og í 2. leikhluta munaði aldrei meira en 4 stigum. Staðan í hálfleik 38-40 og von á skemmtilegum seinni hálfleik.
 
Fyrri hluti 3. leikhluta spilaðist eins og fyrrihluti leiksins, þ.e. mjög jafnt, en í stöðunni 56-56 virtust Haukarnir hrökkva verulega í gír og að sama skapi gekk lítið upp hjá Hamri. Haukar skoruðu 11 stig í röð og breyttu stöðunni í 56-67. Á móti uppskáru Hamarsmenn lítið annað en villur og tapaða bolta en þegar heimamenn náðu skoti, vildi boltinn ekki ofaní. Staðan semsagt 56-67 fyrir gestunum fyrir lokahlutann.
 
Heimamenn voru þó ekki búnir að gefast upp heldur sýndu karakter og komu til baka og jöfnuðu leikinn 76-76 þegar tæpar 5 mínútur voru eftir. En í stöðunni 80-84, og 100 sekúndur eftir, fær Glen Robinson dæmdan á sig ruðning, og þar með 5 villuna sína og þarf að fara af velli. Í þeirri stöðu tekur Ágúst Björgvinsson leikhlé til að róa sína menn.
 
Svavar Páll Pállson, Hamar, brýtur sér leið í gegnum vörn Haukanna og fer upp í sniðskotið og skorar en á einhvern óskiljanlegan hátt er dæmdur á hann ruðningur, í staðin fyrir körfu góða og vítaskot sem réttilega hefði átt að dæma (þó svo að undirritaður sé kannski ekki alveg hlutlaus).
 
Leiknum líkur með 7 stiga sigri Hauka, 82-89.
 
Atkvæðamestur í liði Haukanna var Gerald Robinson, en hann setti 29 stig og tók 14 fráköst. Semaj Inge kom næstur með 22 stig, 9 fráköst og 6 stoðsendingar.
 
Hjá heimamönnum var það Andre Dabney sem var atkvæðamestur með 28 stig, en næstur á eftir honum komu Darri Hilmarsson og Ellert Arnarson með 17 stig hvor. Svavar gerði 10 stig og Ragnar Ágúst setti 4 og tók 11 fráköst. Hann var einnig með 3 varin skot.
 
 
Umfjöllun: Jakob F. Hansen
 
Ljósmynd/ Sævar Logi Ólafsson: Darri Hilmarsson er hér í baráttunni gegn Haukum, hann gerði 17 stig fyrir Hvergerðinga í kvöld.