Hamarsstúlkurnar fengu íslandsmeistara KR í heimsókn í blómabæinn í dag í kaflaskiptum stórleik sem bauð upp á mistök, hörku baráttu, dramatík og háspennu-lífshættu þar sem úrslitin réðust á síðasta skoti leiksins.

 
Leikurinn í Hveragerði fór fjörlega af stað og skiptu liðið systurlega á milli sín stigaskorinu  fyrstu mínúturnar. Þegar rúmar 2 mínútur voru eftir af 1. Leikhluta og staðan 17-17 fékk Guðrún Gróa sína þriðju villu og  Hrafn ákvað að taka leikhlé til að skerpa á leik sinna stúlkna.  Ekki hafði það tilætluð áhrif því heimamenn skoruðu næstu 5 stig og mínútu síðar ákvað Hrafn að taka annað leikhlé. Ekki virkaði það betur en svo að Hamar kláraði fjórðunginn með öðrum 5 stigum á móti 1 stig KR og staðan því 27-18 eftir fyrsta leikhlutann.
 
Byrjun 2. leikhluta einkenndist nokkuð af töpuðum boltum og vandræðalegum sóknarleik hjá báðum liðum enum miðjan fjórðunginn var dæmd tæknivilla á þjálfara gestana fyrir síendurtekið og tuð við mikla hrifningur áhorfenda í Hveragerði.  Munurinn hélst svipaður nánast út leikhlutann en hugur Hamars var kominn inn í klefa 30 sekúndum og snemma fyrir hálfleikshléið því Kara smellti niður góðum þrist og Rannveig tók innkastið fyrir Hamar undir körfunni og gaf boltann beint á Gróu sem stóð ein á auðum sjó undir körfunni og engin Hamarsstúlka nálægt, þannig að Gróa þakkaði pent fyrir sig og lagði boltan ofan í körfuna óáreitt og staðan orðin 42-36 þegar gengið var til búningsherbergja.
Í Hálfleik var J. Butler stigahæst á vellinum með 15 stig og 11 fráköst en Margrét Kara var stigahæst gestanna með 14 stig.
 
Í þriðja leikhlutanum héldu KR áfram að narta í hælana á Hamri og minnkuðu muninn í 2 stig 46-44 um miðjan fjórðunginn en  þá fannst heimastúlkum nóg búið að anda í hálsmálið á þeim svo þær gáfu duglega í og munurinn tólf stig fyrir síðasta fjórðunginn 62-50.
 
Þá var komið að gestunum að taka syrpu og tóku 8-2 áhlaup í upphafi fjórðungsins og greinielgt að einhver smá skjálfti var kominn í heimastúlkur þar sem sóknarleikurinn byrjaði að ganga erfiðlega fyrir sig hjá þeim. Gestirnir héldu svo áfram að saxa á forskotið undir dyggri stjórn Hildar og Margrétar Köru og náðu að jafna leikinn 72-72 þegar 1:31 var eftir á klukkunni og Ágúst Björgvinsson tók leikhlé. Hamarsstúlkur töpuðu boltanum í næstu sókn og Margrét Kara setti niður risastórann þrist, sjöunda þristinn sinn í leiknum.  KR tók leikhlé þegar um 50 sekúndur voru eftir og J. Butler á leiðinni á vítalínuna. Butler setti seinna vítið ofan í og minkaði muninn í 73-75. Hamarsstúlkur spiluðu þá flotta vörn á KR liðið og klikkað Hildur á skoti þegar skotklukkan var að renna út. Heimastelpur geystust þá í sókn og létu boltann ganga vel á milli þangað til Fanney fékk boltann fyrir utan þriggjastigalínuna og smellti honum ofan í og kom Hamri yfir 76-75 og aðeins 8:0 sekúndur eftir. Margrét Kara fékk boltann í sókninni hjá KR og keyrði utan í Kristrúnu sem braut af sér og Margrét Kara á línunni í stöðunni 76-75 og 3:9 sekúndur eftir af leiknum. Kara klikkaði á fyrra vítinu en setti það seinna af öryggi og jafnaði leikinn.  Ágúst Björgvinsson tók aftur leikhlé og teiknaði upp úrslitakerfi leiksins. Eftir nokkur skrín og hlaup hjá Hamarsstúlkum fékk Slavica Dimovska boltan um 2 metrum fyrir utan þriggjastigalína og hleypti af byssunni. Skemst er frá því að segja að boltinn steinlá í körfunni rétt um það leyti sem leikklukkan rann út og Dimovska sýndi enn einusinni að hún er leikmaður sem getur klárað leiki þegar á þarf að halda.  Hamarsstúlkur því enn ósigraðar eftir 5 leiki á toppnum á deildinni.
 
Hjá Hamri var J. Butler stigahæst með 28 stig auk þess sem hún reif niður 20 fráköst og stal 5 boltum. Kristrún Sigurjónsdóttir skoraði 19 stig og hetja leiksins Slavica Dimovska skoraði 17 stig og gaf 6 stoðsendingar.
 
Hjá KR voru Margrét Kara og Hildur Sigurðardóttir lang atvkæðamestar en Kara skoraði  28 stig, tók 8 fráköst og gaf 6 stoðsendingar en Hildur skoraði 24 stig, tók 8 fráköst og gaf 5 stoðsendingar en Guðrún Gróa bætti síðan við 10 stigum, en aðrar gerðu minna. 
 
 
Umfjöllun og mynd: Sævar Logi Ólafsson 
 
Mynd: Ósvikin fögnuður braust út í leikslok hjá Hamarsstúlkum eftir dramatíska flautukörfu Slavicu Dimovsku.